Ég fór í mitt fyrsta sjósund í Atlantshafinu í gær, á sjálfan þjóðhátíðardaginn og þótti mér það einkar viðeigandi. Það var tiltölulega skýjað þegar við hjóluðum af stað í Nauthólsvíkina en létti stöðugt til sem mér þótti nú ekki verra.
Þegar ég var komin í sundbolinn og þar með til í slaginn fór ég að finna fyrir fiðringi í maganum. Ég einblíndi hins vegar sem minnst á það en rifjaði í sífellu þær tvær reglur sem mér höfðu verið settar:
1. Ekki hika eina sekúndu, bara demba sér út í
2. Einblína á að ná tökum á andardrættinum þegar út í er komið
Þess utan voru tvær staðreyndir sem mér fannst gott að rifja upp meðan við gengum niður að sjó:
1. Sjórinn ER kaldur
2. Fyrstu 20-30 sekúndurnar eru verstar, eftir það venst maður kuldanum
Ég get stolt sagt frá því að ég nýtti mér reglurnar tvær til hins ýtrasta, ég dembdi mér út í sjóinn án þess að hika eitt andartak og þegar út í var komið hófst ég strax handa við að synda kröftuglega og anda eins reglulega og mér var unnt í 11° C heitum sjó. Ég verð þó að viðurkenna að sjórinn var miklu, miklu kaldari en mig hafði órað fyrir.
Ég synti að innri bauju og þegar þangað var komið var eins og við manninn mælt, andardrátturinn var orðinn reglulegur, ég hætt að skjálfa eins mikið og kuldinn farinn að venjast. Ég var því til í að synda lengra og fórum við Baldur sem leið liggur frá innri bauju yfir í upphitaða lónið. Það var svolítið eins og að synda yfir í heitan pott þegar komið var inn í lónið, sem er að mér skilst um 18°C heitt.
Eftir þetta mikla þrekvirki lögðumst við í heita pottinn eins og lög gera ráð fyrir og möruðum þar í hálfu kafi. Ég fór reyndar aftur út í og synti út að innri bauju, en það gaf mér bara tækifæri til að fara aftur ofan í heita pottinn.
Já, ég er ekki frá því að þetta Maríusjósund hafi gengið vonum framar, ég er í það minnsta hæstánægð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli