Mig langaði að nefna þessa færslu Konan við 1000° lesin af konunni á 65.° en mér fannst það óþjállt svo ég hætti við. Þó er það alveg satt.
Já, hvar á maður að byrja í umfjöllun sinni um þetta verk? Ég fæ bara hnút í magann og mér fallast hendur. Rosalegt. Æðislegt. Kinnhestur. Hlátur. Hahahaha. Klemma-aftur-augun-þetta-er-ekki-að-gerast-vil-ekki-lesa-meira... Allur pakkinn?
Til að gera umfjöllunina markvissari ætla ég að tína fram nokkra punkta sem vöktu áhuga minn. Til að staðsetja verkið er best að taka fram að höfundur er Hallgrímur Helgason (HH) og sagan er sögð af Herbjörgu Maríu Björnsson sem deilir hér með lesendum afspyrnu litríku lífi á dásamlega sérstakan og skemmtilegan hátt.
Sögusvið: Ég elska sögulegar skáldsögur - historical fiction - og finnst enn betra þegar sögusviðið er dreift um allar jarðir eins og hér er raunin. Við fáum að kíkja inn á lífið á Íslandi á 8. áratugnum, seinni heimsstyrjöld í Þýskalandi og Póllandi er til umfjöllunar sem og Argentína eftir stríð og og síðast en ekki síst Ísland, eða réttara sagt Svefneyjar, fyrir stríð. Uppáhaldssögusviðið mitt voru Fríseyjar, þar fannst mér höfundi takast einstaklega vel upp að skapa samfélag sem lesandi gekk inn í og var fullur þátttakandi í.
Hugmyndir: Frekar framarlega í sögunni talar sögumaðurinn Herbjörg (Herra) um íslenska þagnahefð og lýsir yfir þeirri skoðun að Íslendingar hafi um aldaskeið ekkert notað tungumál sitt - latínu norðursins - heldur geymt það eins og dýrgrip fyrir hinar Norðurlandaþjóðirnar. Ég hafði einstaklega gaman af því að lesa þessar pælingar, ekki síst fyrir þær sakir að ég bý í Noregi þar sem maður fær úr ólíklegustu áttum hrós fyrir að hafa varðveitt tungumálið svona vel í gegnum aldirnar (Tusen takk, vi er flinke, ikke sant?). Að segja að það hafi verið af því að tungumálið var ekki notað finnst mér skemmtilega róttæk nálgun og ekki svo vitlaus. Eigum við það ekki til að sópa óþægilegu málefnunum undir teppi í stað þess að ræða þau?
"Í þá daga var þögnin ein af meginstoðum íslenskrar menningar. Menn leystu ekki hnúta sína með samræðum og voru duglegri að spá í þagnir en spyrja út. Fólk trúði því beinlínis að hægt væri að þegja af sér heilu lífin. En þetta var svosem skiljanlegt því þarna vorum við að skríða út úr þúsund ára löngum þagnarbúskap til sjávar og sveita þar sem orð voru stritinu óþörf og því best geymd á bók inní stofu og baðstofu. En sú var einmitt ástæðan fyrir því að íslenskan breyttist ekkert í þúsund ár: Við notuðum hana nær ekkert. [...] Heyrt hef ég sagt að sú mikla Íslandsþögn sé til komin vegna samnings sem forðum var gerður við Norðurlönd: Þeir létu okkur óáreitta gegn því að við varðveittum fyrir þá tunguna, sem þeir voru þá óðum að tapa með uppsleikjum sínum við þýskar og franskar hirðir. Og það sem maður geymir fyrir aðra snertir maður ekki sjálfur." (bls. 80-81)Svo tísti ógurlega í mér þegar ég las þessa setningu, og það tísti lengi í mér: "Norska er niðurstaðan sem fæst þegar heil þjóð tekur sig saman um að reyna að tala ekki dönsku." (bls. 81)
Myndlíkingar: Ég hrasaði um fjölmargar góðar og fallega myndlíkingar sem þjónuðu raunverulega því hlutverki sínu að auðga textann og útskýra aðstæður betur með hjálp myndmáls. Dæmi um þetta er þegar Herra lýsir myrkrinu sem fólst djúpt í hugarfylgsnum SS foringjans Hartmut: "Blikið í augum hans var á einhvern hátt blekfullt, og þótt brosið væri bjart kom það til mín líkt og árblik innst í dimmum helli." (bls. 331)
Húmorinn: Bara frábær, takk fyrir hlátrasköllin! Er enn að flissa yfir senunni þegar Herra hringir og pantar tíma í líkbrennslunni, sérstaklega þegar hún segist ætla að reyna að vera dauð áður en hún mætir, annars verði þau að drepa hana. Líka lýsingin á íslensku jólunum í Argentínu þar sem helgislepjan lak niður veggina. Mér fannst það drepfyndin lýsing og ná jólaandanum alveg spot on.
Lýsingar: Margar senur úr bókinni standa manni ljóslifandi fyrir hugskotum, svo skýrum dráttum hafa þær verið dregnar. Ég las í einni bókmenntagagnrýni um bókina að HH náði miklu flugi í lýsingum sínum í köflunum um Pólland, og ég er alveg sammála því. Þar eru margar fallegar og einlægar lýsingar að finna: "... á kvöldi svo heitu og kyrrlátu að kertið tók ekki einu sinni eftir því að glugginn stóð upp á gátt en lýsti þeim mun mildilegar þennan undarlega fund" (bls. 326).
Tungumál: Ég tek ofan af fyrir HH þegar kemur að nýyrðasmíð og allri leikgleðinni með málið og útúrsnúninga. Ástarverkfræðingar. Búddabóndi. Gæsalappabrúðkaup. Dettur helst í hug allra síðustu orð bókarinnar, tíu fingur upp til guðs. Hvar fær hann þessar hugmyndir? Eftir lesturinn líður mér eins og risa með nál og tvinna í höndum þegar ég sest og smíða saman orð, það kemur út klossað og klaufalegt.
Það er svo gaman að lesa svona lifandi texta sem þó er á sama tíma tilfinningaríkur og samúðarfullur. Eins og þegar Herra lýsir ferðinni til Fríslands eftir stríð og situr og syrgir lífið sem hún átti að hafa lifað. Þessi setning snerti einhverja taug í mér og ég las hana maroft yfir bara til að fá það staðfest að þessi tilfinning fyrirfinnist meðal annarra.
Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir HH og ég er viss um að ég hafi byrjað á toppnum. Það hljóta að vera meðmæli, nicht wahr?
Ég tel þessa bók ekki með sem eina af fimm klassísku af því að hún getur ekki samkvæmt formúlunni talist klassískt verk en mér finnst samt að hún ætti að verða klassísk strax. Það hljóta að vera meðmæli, n'est-ce pas?
Púhe, ég vil ekki vera búin að lesa bókina! Það hljóta að vera meðmæli, ikke også?
1 ummæli:
Ég er svoooo sammála þér Ásdís. Þessi bók er frá fyrsta staf og til síðasta punkts brakandi snilld og spilar á alla tilfinningaskala lesandans. Mér fannst ég læra svo mikið af bókinni, hluti sem ég get ekki alveg sett fingurinn á en geymi vonandi í innsæinu. Tvímælalaust ein besta bók sem ég hef lesið og skemmtilega ólík öðru sem ég hef lesið eftir HH.
Skrifa ummæli