þriðjudagur, 17. apríl 2012

TED & mannfræðin

Ég notaði vinnudaginn í gær til að velta mannfræðinni fyrir mér. Stóð við handslæginguna, tók upp einn og einn fisk og gerði að honum, risti upp og ryksugaði, annan fisk gat ég sent beint á Bader 1 sem er handmötuð vél sem gerir að fiskinum. Klöngraðist reglulega niður álstigann til að kíkja í körin sem standa við etterens, þangað er fiski fleygt af færibandinu sem vélarnar hafa gert illa eða hreinlega ekki að. Rogaðist með þá upp stigann og gerði að.

Var á meðan þessu stóð að velta fyrir mér mannfræðinni og hvað hún hefur fram að færa. Gat setið löngum stundum á óþægilega mjórri stálstöng þegar ekkert var að gera, þegar enginn lax kom að heimsækja mig. Í haust á ég sex ára útskriftarafmæli úr MA náminu og BA og MA námið tók sex ár. Hér er komin einhver speglun/hliðstæða/endurvarp sem ég hef gaman af. Það er eins og það taki mig alltaf janlanga tíma að jafna mig og það tók að afreka eitthvað.

Í svona vinnu hefur maður heilu körin af tíma og heilarými til að velta vöngum yfir hverju sem helst. Það að enginn lifandi lax hafi komið inn á borð til mín í gær gerir hugsunarferlið líka auðveldara, maður á það nefnilega til að gleyma öllum þönkum þegar einn kraftmikill lax lendir með miklum látum á færibandinu hjá manni og maður þarf að slást við hann og sannfæra hann um að þetta sé búið. (Ég er búin að læra eina af lífsins lexíum af laxinum og hún er stórmerkileg: Aldrei gefast upp)

Svona vinna verður líka til þess að maður fer að velta öðrum valmöguleikum lífsins fyrir sér, tilhugsunin um að festast kannski á svona lítilli eyju í laxaverksmiðju það sem eftir er á ekki endilega uppá pallborðið. Já, mannfræðin. Gæti verið að ég sé farin að sakna hennar? Hmmm, þarf að velta þeirri spurningu fyrir mér í vinnunni í dag!

Ég fór rakleitt heim eftir vinnu og fletti upp mannfræði á vef TED. Datt þar niður á nokkur skemmtileg og fræðandi myndbönd. Deili þeim hér til gagns og gamans.

Wade Davis: Dreams from endangered cultures



Nina Jablonski breaks the illusion of skin color



Amber Case: We are all cyborgs now



Louise Leakey digs for humanity's origins

2 ummæli:

Augabragð sagði...

Vá, við að lesa þessa færslu þá fékk ég þvílíkt flashback frá því ég vann í frystihúsinu hérna í denn. Mér fannst frekar gaman þegar það kom vertíð því þá hafði maður mikið að gera, fékk mikil laun og hafði mikið rúm til að hugsa löngum stundum á færibandinu :)

ásdís maría sagði...

Já, það getur alveg verið góð stemmning í fiskinum :)