laugardagur, 21. júlí 2012

Farvel kake og farvel middag

Þá er síðasta helgin runnin upp. Í gær fengum við skemmtilega sendingu í póstinum, nýju snjallsímarnir sem við pöntuðum fyrr í vikunni voru komnir svo við spændum af stað í búðina að sækja þá og fórum svo heim að leika. Sony Xperia S, vertu velkominn í lífið mitt! Nú er það bara að appa sig upp: app, app, app.


Við notuðum meira að segja tækifærið og gláptum á mynd í sjónvarpinu og notuðum að sjálfsögðu til þess nýjustu tækni og vísindi heimilisins: við hlóðum mynd af tölvunni inn á snjallsímann minn, tengdum svo við sjónvarpið í gegnum HDMI kapal og gátum þannig horft á norska spæjarann Varg Veum sinna störfum sínum. Áttum í stökustu vandræðum með allar mállýskurnar frá Vestland og Sørland og það sannaðist eina ferðina enn að við tölum hvorki sænsku né norsku, við tölum norrländsku og Nordnorsk, þessi mjúku og hægu mál. Reyndar vorum við orðin ansi sleip eftir 90 mínútur af hlustun og einni whodunit ríkari.


Fyrst síðasta helgin er runnin upp gefur að skilja að síðasti laugardagurinn okkar á eyjunni var í dag. Í tilefni hans ákváðum við að bjóða búlgörskum vinum okkar Violetu og Vladimir yfir í mat, ásamt strákunum þeirra Coco og Victor. Ég ákvað auðvitað að hafa salsalasanja, eina sem ég virðist elda þessa dagana, sérstaklega þegar ég fæ hvatningu frá Baldri sem segir að sín vegna megi ég elda þetta þrisvar í viku.

Við fórum því í búðina og gerðum síðustu helgarinnkaupin okkar þar, rétt fyrir lokun eins og venjulega enda er það langskemmtilegasti tíminn til að mæta í búðina, þá mæta allir nefnilega. Það voru tregablandnar tilfinningar með í för að þessu sinni, öll þessi síðasta sinn tilfelli eru alveg að draga niður góðu stemmninguna! Ég vona bara að ég fari ekki að grenja síðasta vinnudaginn þegar ég sé síðasta laxinn renna eftir færibandinu, það væri fullmikið eða hvað?



Áður en kvöldgestirnir komu fengum við hins vegar aðra gesti færandi hendi, þau Kim og Kari og litlu stelpuna þeirra Emmu. Kari hafði bakað og skreytt heila marsípantertu sem var kveðjugjöf þeirra til okkar. Aðalpersónur tertunnar voru að sjálfsögðu kjøla félagarnir Baldur og Kim að keyra lyftarann og kallandi Kaffi! og Lappe! sem er víst daglegt brauð inn á kjøla.



Við gæddum okkar á gómsætri kökunni og sýndum þeim myndir frá Íslandi, albúm með fallegum póstkortum og ljósmyndum af landi og fjölskyldu. Erum nú orðin sérfræðingar í kynningarmálum Íslands á erlendri grundu enda búin að sýna ógrynni af fólki albúmið í hinum ýmsustu löndum og heimsálfum og við ólíklegustu aðstæður.


Um kvöldið komu svo Violeta og Vladimir, með búlgörsku ostabökuna banitsa sem er venjulega á boðstólum í Búlgaríu við sérstök tilefni. Þau færðu okkur póstkort og minjagripi frá borginni þeirra Varna enda nýkomin þaðan úr góðu sumarfríi. Þau eru bæði mjög létt í skapi og hláturmild og því var mikið hlegið þetta kvöld. Besta augnablik kvöldsins var sjálfsagt þegar Vladimir stóð upp og tók að ganga fram og til baka. Violeta sagði að nú hefði hann borðað yfir sig en Vladimir harðneitaði því: "I ate exactly as much as I could!" Baldur hló allt kvöldið að þessu og smitaði okkur hin.


Þar sem það rigndi á sama tíma og sólin skein úr vestri fengum við fínan tvöfaldan regnboga sem við kepptumst öll við að mynda og sjá og urðum fyrir vikið köld og blaut. Hér eru Victor og Coco að drífa sig upp á efri hæðina til að sjá regnbogann frá gestaherberginu.


Svo kom frasinn Що си бос? [shto si bos] einnig við sögu enda mikið notaður af Baldri og nokkur veginn það eina sem við kunnum í búlgörsku. Þetta þýðir "ertu á sokkaleystunum?" eða "skólaus" og Baldur greip þetta einhvern tímann á lofti þegar Violeta kallaði á eftir Coco og bað hann að fara í skó. Síðan hefur Baldur fengið ógrynni af tækifærum til að nota frasann og ávallt við sama fögnuðinn. Við viljum meina að við höfum komist að kjarna búlgaskrar menningar.



Eins og skemmtileg kvöld eiga að enda þá tók það tvö skipti að bjóða góða nótt. Við höfðum spjallað í dágóða stund í dyragættinni eins og lög kveða á um, þau höfðu tekið saman stólinn sem þau höfðu komið með og Victor hafði fengið að spranga um með ofnhanskann. Loks kvöddumst við og buðum góða nótt til þess eins að uppgötva að couscousið sem við höfðum arfleitt þau af hafði gleymst á eldhúsborðinu. Baldur spratt á eftir gestunum og þá var að sjálfsögðu tilefni til einnar hópmyndar, en ekki hvað?


Engin ummæli: