fimmtudagur, 5. júlí 2012

Jarðarber





Ég held ég hafi aldrei borðað eins mikið af jarðarberjum og þetta sumarið. Það er auðvitað ekkert nema viðeigandi, jarðarberið verandi upprunið af þessum slóðum. Við höfum verið að úða í okkur belgískum jarðarberjum fram til þessa en núna er litla búðin á eyjunni full af norskum jarðarberjum og það verður að segjast eins og er að berin úr heimabyggð bera algjörlega af. Rauð og sæt í gegn. Berin fara í smoothies, ofan á tyrkneska jógúrt eða vanillukesam, borðast beint upp úr boxinu og jafnvel sem meðlæti með sætindum eins og kladdkaka og banoffie pie.

Á meðan á göngu/hlaupatúr dagsins stóð hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að koma heim og bíta í nokkur ber áður en ég réðist í kvöldmatinn. Iðulega gef ég mér tíma til að á í lítilli laut sem ég hef fundið á gönguleið minni og hef gert að uppáhaldi og í dag var enginn breyting þar á, þvert á móti hlýt ég að hafa áð í hálftíma. Fyrst sólaði ég mig á berjalynginu en engdist aðeins um vegna mauranna sem sumir hverjir bitu. Svo kúrði ég smá eftir að hafa farið aftur í peysuna til að varna maurunum aðgang. Stóð svo á fætur þegar ég heyrði í Baldri og Kim koma niður af fjalli en þegar ég sá ekki til þeirra tók ég að skokka heim á leið. Baldur kom síðan hlaupandi á eftir mér í þungum gönguskónnum, klonk-klonk, hafði séð mig fara framhjá fyrir neðan húsið hans Kims og tekið á rás.

Þegar við komum svo heim að húsi voru nágrannarnir Mads og Anja búin að draga fram borð og stóla, dúka og diska og buðu okkur í vatnsmelónur og jarðarber í sólinni. Fyrir var Trish við borðið svo við bættumst bara við í gestahópinn, og í kringum okkur hlupu þrjár stelpur og ein sem sat í fanginu á mömmu sinni, og svo kúrði einn lítill kútur í maganum á Trish. Fáum að sjá hann eftir tvær vikur. Við sátum í góðan hálftíma og nutum selskapsins og þess að fá tækifæri til að tala norsku en gang  imellom og hvíla sig á sænskunni. Svo vildi litlu stelpurnar drífa sig á nýju baðströndina sem lögð hefur verið í víkinni sem við búum við í sumar, svo mamman og pabbinn drifu sig af stað og við fórum inn í hús í kvöldmat og almennt kos.

Engin ummæli: