Toppurinn á þeirri heimsókn var að sjálfsögðu tertan sem við fengum en nú er ég að fara fram úr sjálfri mér því áður en að tertunni kom urðum við að skoða blessuð húsakynnin. Það má segja að þegar við erum annars vegar sé farið vel ofan í saumana eða í þessu tilviki vel inní dimman torfbæinn. Við skoðuðum áhöldin sem notuð voru við dúnhreinsun og lásum um dúntöku og önnur jarðhlunnindi. Við skoðuðum strokka og prófuðum meira að segja aðeins að hreyfa við skeftinu þó svo að það stæði skýrum stöfum að ekki mætti snerta munina. Svona er maður óhlýðinn inn við beinið.
Ég reikna svolítið með að allir hafi komið inn í torfbæi og ætla því ekkert að lýsa þeirri upplifun per se í neinum smáatriðum. Auðvitað er mjög athyglisvert að ganga um svona þröng híbýli þar sem lágt er til lofts og gólfin ójöfn með meiru. Að ég tali nú ekki um hve svalt það er innandyra. Á þessum fína degi var svalinn hins vegar alveg velkominn en mikið er ljómandi gott að þurfa ekki að búa í torfkofa yfir vetrartímann og geta bara hækkað í ofninn þegar hroll sækir að manni. Lúxuslíf.
Rúmstæðin eru kannski það sem ég hjó sérstaklega eftir því jeminn eini hve smá í sniðun þau eru í öllum þessum torfbæum. Svo er hægt að breikka mörg rúmanna svo þau rúmi fleiri og finnst manni þá ekki á bætandi, en líklegast hefur það bara verið blessun að fá einn auka undir sængina til að verma upp. Ég skal ekki segja. Hins vegar þegar við komum upp í það sem áður var herbergi presthjónanna var annað hljóð komið í strokkinn. Alvöru tvíbreitt rúm, uppábúið og still upp við birtufagran skjá svo sá út á grasivaxið þakið og safarík stráin beint fyrir utan. Þá var líka búið að timburklæða í hólf og gólf sem verður að segjast eins og er að gerir heilmikið fyrir stílinn. Blámálaðir veggir og hvítt loft, bara flott í alla staði.
Jú, og svo var eitt annað herbergi mjög svo forvitnilegt en það var brúðarhúsið en eins og kemur fram í bæklingnum sem okkur var afhendur þá var það svo að "í brúpkaupsveislum heldra fólks á fyrri öldum sátu þar konur til borðs ásamt brúðinni framan af veisluhöldum og dregur húsið nafn sitt af því." Í glerbúri í þessu brúðarhúsi - sem er lítið herbergi fremur en hús - er að finna ónotaðan skautbúning sem ein af heimasætunum saumaði fyrir brúðkaup sitt en náði aldrei að klæðast því hún dó áður en til þess kom. Hugsa sér það hlutskipti.
Þegar við vorum búin að skoða okkur södd af torfbænum röltum við yfir að kirkjunni og kirkjugarðinum. Kvittuðum fyrir okkur í gestabókina og tókum svo að skima eftir forvitnilegum nöfnum á legsteinunum. Fundum þrjú í óhefðbundnari kantinum: Jórlaug, Sumarrós og Sigurfljóð. Svo rakst ég á fallega speki á einum legsteinanna sem ég páraði niður: Þar sem góðir menn ganga eru Guðs vegir.
Við fengum okkur síðan síðbúinn hádegisverð í kaffiteríunni og gómsæta súkkulaði-marengstertu með bláberjum í desert. Guð hvað það er frábært að vera í fríi! Keyptum nokkur póstkort af Íslandi handa vinum okkar í Noregi og skrifuðum orðsendingar á þau. Sátum úti á svölum í yndislegu sumarveðri með fallegu sveitina umhverfis og gamlar sveitaperlur í eyrum. Er alveg að fíla þessar sveitaperlur sem svo mikið eru spilaðar hér fyrir norðan.
Kvöddum svo Laufás eftir yndislega heimsókn og brunuðum í Grenivík og þar póstlögðum við kortin. Keyptum í leiðinni ískalda malt í gleri og röltum niður að fjöru. Þar fundum við kelurófu aldarinnar, kisulóru sem vildi leika með strá eins og enginn væri morgundagurinn. Tókum smá hring um þorpið og enduðum í kirkjugarðinum.
Hittum þar fyrir labradorinn Trukk sem líka vildi leika og eiganda hans, ungan mann sem stóð þarna í grasslætti á milli leiða. Það kom í ljós að foreldrar hans eru presthjónin á Laufási, en sjálfur sagðist hann ætla að læra til bifvélavirkjans. Á meðan þeir Baldur röbbuðu um bifvélavirkjun fór ég að skima eftir sérkennilegum nöfnum eina ferðina enn. Nú hafði ég eitthvað upp úr krafsinu. Manasína fædd 1877, Egedía fædd 1879 og Efemía fædd 1896. En sérkennilegastur var samt legsteinninn með engu ártali eða dagsetningu heldur aðeins einu nafni: Finna. Mér leikur forvitni á að vita hvaða saga liggur þarna að baki.
Á leiðinni frá Grenivík og inn á Akureyri rak ég augun í svo geggjaðan vita sem stendur á ströndinni við Svalbarðseyri. Við brunuðum því í gegnum Svalbarðseyri og fórum í smá fjöruferð. Baldur fann þó nokkrar risavaxnar marglittur sem hann vildi ólmur að ég potaði í og ég var svo sem ekkert andvíg því. En stráin fundust mér meira spennandi og svo var vitinn líka fjarskafagur í sínum skæru litum.
Utan á Svalbarðseyrarvita stóð svo þessi speki undirrituð af einhverjum Loesje: If you have lit up your fire give the matches to the person next to you. Og þessi hér líka: When the sun sleeps it's time to dance in the dark. Mér finnst líka voða gott að sofa þá, just saying.
2 ummæli:
En gaman! Ég er einmitt að fara í vinnuferð norður í næstu viku og mun m.a. fara á Svalbarðseyri. Ég ætla að tjékka á þessum fína vita :)
O, svo heppin! Kíktu endilega á vitann, hann er svo æðislega appelsínugulur :)
Skrifa ummæli