Byrjuðum daginn á spretthlaupsæfingu og síðan sundferð sem er náttúrulega ávísun á frábæran dag. Eftir 1500m gott sund var lagst í pottana. Mér finnst Akureyrarlaug ein sú skemmtilegasta á landinu, þá með tilliti til laugarinnar sjálfrar sem er svo gott að synda í, gufunnar sem er svo stór og góð og svo liggjupottsins og sólbaðsaðstöðunnar sem er á pöllum og gefur þar með fína yfirsýn yfir sundlaugarsvæðið. Hrifin hrifin.
Úr sundlauginni röltum við niður Kaupvangsstræti og virtum fyrir okkur hangandi kjóla og önnur plögg. Við Eymundsson rak ég augun í bækur á útsölu og þar sem ég kannaðist við einn af titlunum ákvað ég að kippa þeirri bók með, nema hvað ég borgaði nú fyrir hana fyrst. Enduðum síðan á Bláu könnunni þar sem við fengum okkur grænmetis- og spínatbökur í hádegisverð og settumst svo að snæðingi úti í sólinni. Það liggur við að ég skammist mín að viðurkenna það en við fengum okkur enn einn daginn tertusneið í eftirrétt, að þessu sinni fékk ég marengsbombu. Sat svo og sötraði á köldu sítrónuvatni og byrjaði á nýju bókinni minni og var þar með umvafin öllu því sem mér finnst best í heimi hér.
Að hádegisverði loknum fórum við í búðarráp enda sumarútsölur í fullum gangi. Enduðum á því að kaupa okkur sitthvort skóparið í skóbúðinni sem ég veit ekki hvað heitir og kalla alltaf skóbúðin á Akureyri. Hef einmitt áður keypt mér skó þar. Að þessu sinni fann ég vel aðsniðna og mjúka leðurskó, reimaða og fóðraða að innan með fylltun hæl. Ætlaði varla að tíma að fara úr þeim og velti því vandlega fyrir mér hvort ég ætti að ganga á þeim út í sumarblíðuna. Hvarf samt frá því og pakkaði þeim bara saman og strauk kassanum. Hlakka til að fara í þá í vetur eða bara strax í haust. Baldur aftur á móti fann sér Ecco skó sem hann skutlaði sér beint í og ég held hann komi barasta ekkert til með að fara út þeim í nánustu framtíð.
Stóri víkingurinn í risalopapeysunni er horfinn af göngugötunni en í hans stað eru nú komin tröll og skessa sem allir ferðamennirnir láta mynda sig hjá. Við ætluðum að sjálfsögðu að gera slíkt hið sama svo Baldur stillti sér upp og ég smellti af. Þá bar að tvo Frakka sem spurðu hvort þau ættu að taka mynd af okkur saman og ég brosti bara og sagði nei takk, og strauk svo myndavélinni minni sem ég vil helst ekki að neinn handfjatli. Hins vegar endurgalt ég greiðann og það meira að segja á frönsku: Est-ce que vous voulez que je prenne votre photo? Þau voða ánægð þáðu það svo nú á þetta ágæta par mynd af sér á aðalverslunargötu Akureyrar í félagsskap trölls og skessu.
Ég hafði ákveðið að það væri gaman að rölta upp kirkjutröppurnar sem liggja að Akureyrarkirkju svo við gerðum það. Kíktum að því tilefni inn í kirkjuna sjálfa. Þar inni voru tveir asískir ferðamenn dottandi á öxlum hvors annars svo við höfðum voðalega hljótt um okkur. Sem ég er að munda myndavélina og við það að stelast yfir snæri sem strengt hafði verið yfir tröppunum innst í kirkjunni kemur presturinn sjálfur út um einhverja leynihurð á veggnum og grípur mig glóðvolga. En hún hló bara þegar hún sá vandræðaganginn á mér og spurði hvort ég vildi komast upp á pallinn, sagði að það gengi alveg því það væri svo fámennt.
Upp úr þessu, og líka því að Baldur kom aðvífandi með bók í höndum sem hann taldi að einhver hefði gleymt en var í raun bók prestsins, fórum við að spjalla við prestinn, hana sr. Jónu Lísu. Og það var líka svona gaman. Ekki vissi ég að prestar gætu verið svona skemmtilegir og hispurslausir. Eins og ég sagði henni sjálf þá tek ég venjulega u-beygju ef ég mæti presti, eða svona því sem næst, en ég var fegin því að þessu sinni að hafa misst af þeirri beygju.
Við kjöftuðum og kjöftuðum og á meðan við kjöftuðum lokaði og læsti Jóna Lísa kirkjunni. Við héldum áfram að kjafta, síðan færðum við okkur út og kjöftuðum aðeins meira. Um það leyti sem við kvöddumst höfðu tekist með okkur svo góð kynni að við vorum boðin í morgunkaffi daginn eftir.
Frá kirkjunni röltum við yfir í lystigarðinn og ætluðum að athuga með kvöldsnarl á kaffi Björk. Gengum hægt um lystigarðinn og virtum fyrir okkur gróðurinn og blómstrin öll, heilsuðum fólki og tókum myndir. En þá varð myndavélin batteríslaus, það kom semsé að því, svo við ákváðum að koma bara daginn eftir í lystigarðinn og gera honum betri skil þá. Nú skyldi haldið á tælenskan stað til að seðja sárasta hungrið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli