föstudagur, 17. ágúst 2012

Akureyri aftur

Það var annar í Akureyri í dag því við gerðum okkur aftur bæjarferð þangað.

Vöknuðum sæmilega snemma og ákváðum að drífa okkur í sund. Fór mína lögbundnu 1500m með potti og gufu og eftir það vorum við strokin og fín og tilbúin í morgunkaffi.

Fórum og heimsóttum hana Jónu Lísu sem við höfðum spjallað svo mikið við daginn áður. Við gerðumst mjög þaulsetnir gestir og fórum ekki fyrr en einhverjum fjórum-fimm tímum síðar, þá búin að skiptast á ævisögum og ná að ræða ýmis hjartans mál. Afrek út af fyrir sig verð ég að segja.

Þegar við kvöddum Jónu Lísu fórum við út í seinasta daginn okkar í tjaldútilegunni. Ég var búin að ákveða að splæsa í ullarteppið frá Sveinbjörgu svo við  héldum niður í Rammagerðina og skoðuðum teppin hennar Hugrúnar til samanburðar og síðan yfir í Eymundsson þar sem ég varð að slást við tvær ítalskar gellur um teppin. Eða það var kannski ekki alveg svo dramatískt en nóg þótti mér um ágang þeirra til að taka frá teppið sem ég hafði augastað á og liggja á því eins og hæna á gulleggi.

Fyrst við vorum á annað borð komin í bókabúð fékk Baldur sér einn espresso og svo fórum við að tína niður bækur úr hillunum og glugga í. Ég fór að lesa í bók mánaðarins sem að þessu sinni var Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry og datt svo rækilega ofan í hana að ég eiginlega neyddist til að kaupa hana.

Um kvöldið fórum við í ísrúnt á bílnum og þó það sé klént þá enduðum við í Brynju og fengum okkur Brynjuís. Í næsta húsi við Brynju er að finna antíksöluna Fröken Blómfríði og við gengum á milli munana og skoðuðum mest með augunum því á fingrunum var ísklístur.

Frá Fröken Blómfríði héldum við að Lystigarðinum eins og við höfðum einsett okkur kvöldið áður. Gengum milli blómanna með sitthvora myndavélina á lofti og smelltum af í gríð og erg. Margar plantnanna voru nefnilega enn í blóma þrátt fyrir að vel sé liðið á sumarið. Í garðinum hittum við fyrir ófeimnasta kött sem við höfum hingað til hitt, sú gerði sér lítið fyrir og stökk beint upp í kjöltuna á mér þarna sem ég sat á hækjum mér með útrétta hönd til að leyfa henni að hnusa af. Talandi um að taka allan handlegginn þegar manni er réttur litliputti.

Við enduðum svo inn á kaffi Björk með heitt súkkulaði í bolla og slökuðum aðeins á.

Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Diskókúla
 
Lystigarðurinn
 
Heitt súkkulaði með rjóma
 
Lundarass vekur ávallt kátínu

1 ummæli:

Augabragð sagði...

Ég fékk mér einmitt kaffi á kaffihúsinu í listigarðinum á Akureyri í sumar og ég var orðlaus yfir frábærum arkitektúr og innbúi. Húrra fyrir þeim.