föstudagur, 26. júlí 2013

Pizza rossa

Pizza rossa

Það er föstudagur, svo það er kominn tími á skemmtilega uppskrift! Og hvað er meira viðeigandi á föstudegi en uppskrift að ekta ítalskri pizzu?

Síðasta vetur á Snorrabrautinni fórum við Baldur reglulega til félaga okkar á Devitos og fengum okkur þar iðulega margarítu sem er að mínu mati sú besta í bænum. Hér í Skien, aftur á móti, er enginn Devitos. Það er reyndar pizzastaður hér nálægt, í Gulset Sentret, en okkur langar ekki alveg svo mikið í pizzu að við tímum að borga hvítuna úr öðru auganu fyrir.
 
Hvað gera bændur þá? Jú, þeir gúggla! Enginn verður óbarinn biskur/páfi?, og enginn fær ekta, ítalska pizzu á borð til sín nema með smá framkvæmdarvilja.
 
Þessa uppskrift fann ég þegar ég gúgglaði italian pizza recipe og datt þá inn á síðuna Walks of Italy. Sú sem setur út uppskriftina er sögð deila með okkur sinni eigin ekta ítölsku, margreyndu og áreiðanlegu pizzauppskrift. Ég ákvað að slá til og nú get ég sagt að þetta var vinnunnar og biðarinnar virði.
 
Biðarinnar? Já, deigið þarf að hefast í að minnsta kosti 5 tíma. Svo langi mann í flatböku í kvöldmat er best að byrja bara í dögun að hræra í og hnoða. En það er algjörlega þess virði.
 
Þessi uppskrift dugar í tvær þunnbotna pizzur, og því er ráð að tvöfalda hana ef fleiri en tveir eða þrír eru í mat.
 
HVAÐ
300 ml volgt vatn
0,5 kg hveiti
13 g pressuger
3 msk ólívuolía
0,5 - 1 msk salt
1 tsk sykur
Pizzasósa
Mozzarella ostur, rifinn eða niðursneiddur
Basilíkulauf
 
HVERNIG
1. Leysið gerið upp í volgu vatni (38-40°C). Muna að hræra til að tryggja að gerið leysist upp.
2. Takið megnið af hveitinu og leggið á borðið, búið til gíg og hellið gervatninu í gíginn.
3. Bætið restinni af hráefnum ofan í gíginn (olía, salt, sykur).
4. Hnoðið saman í deig. Gefið ykkur alveg 10-15 mín. Mikilvægt að halda undirlaginu hveitistráðu. Þegar deigið er orðið vel teygjanlegt hefur það verið nægilega vel hnoðað.
5. Smyrjið skál með olíu, leggið deigið í. Penslið yfirborð deigsins létt með olíu.
6. Hyljið skálina með viskustykki og leggið til hliðar þar sem enginn er gegnumtrekkurinn. Leyfið að hefast í að minnsta kosti 5 tíma.
7. Fyrir þá sem vilja fylgja ítölsku hefðinni skal skorinn kross í deigið áður en það er lagt til hliðar. Þannig blessa Ítalirnir brauðið sem bakast mun úr deiginu.
8. Þegar 5 tímar eru liðnir er ráð að hita ofninn upp í 200°C.
9. Skellið deiginu á hveitistráð borð og sláið það niður (lemjið það og berjið) til að losna við megnið af loftbólunum.
10. Skiptið deiginu í tvennt og leyfið því að standa í nokkrar mín. áður en lengra er haldið.
11. Rúllið fyrst öðrum helmingnum og síðan hinum út í 30 cm hring fyrir þunnbotna pizzu (pizza bassa), nú eða út í ferhyrning eins og þeir gera líka á Ítalíu (þ.e. þegar maður kaupir pizzu eftir lengd)
12. Setjið pizzuna á bökunarpappír og síðan á bökunarplötu.
13. Þekið botninn með pizzasósu og olíuberið skorpuna. Af lit sósunnar dregur pizzan nafn sitt: Pizza rossa.
14. Bakið botninn í u.þ.b. 10 mín. Botninn mun púffast aðeins upp eins og sjá má á myndunum hjá mér.
15. Takið botninn út og bætið rifinni eða sneiddri mozarellu ofan á.
16. Inní ofn og bakið áfram þar til skorpan er orðin brún + osturinn bráðinn.
 
Til að ná fram enn sterkari ítölskum svip á pizzuna má leggja nokkur basilíku lauf ofan á.

Bragðlaukar, velkomnir til Ítalíu! Buon appetito a tutti!

Deiginu sveiflað
 
Untitled
 
Pizza rosso
 
Pizza rosso

Engin ummæli: