Október var í rólegri kantinum. Segi ég og las samt fimm bækur! Það er kannski ágætt að koma aðeins niður á jörðina!
Það er engu að síður áhugavert að sjá að lestrarrútínan mín er svolítið öfugsnúin þetta haustið. Venjulega les ég lítið á sumrin og síðan kemur september með kraftmikla innspýtingu í lesturinn og sú innspýting endist yfirleitt fram til jóla. Þetta ætlar að verða eitthvað öðruvísi þetta haustið og ekki sér fram á að nóvember verði gjöfullli því ég ætla að skrá mig til leiks í NaNoWriMo og þá forðast ég allar bækur. Ég smitast nefnilega jafnauðveldlega af góðum stíl eins og af stórum geispa.
Ég ætla hér að taka fyrir þær bækur sem stóðu upp úr í mánuðinum, sem eru Half Broke Horses og Jamrach's menagerie. Mér finnst eins og ég ætti að skrifa um The Interestings af því að hún hefur fengið svo mikla umfjöllun á árinu, en í sannleika sagt þá hef ég ekkert um hana að segja.
Jeannette Walls er þekktust fyrir að hafa gefið út æskuminningar sínar í bókinni The Glass Castle. Sú bók er alveg rosaleg. Sagan er engin sérstök skemmtilesning því þarna lýsir Jeannette uppvaxtarárum sínum og systkina sinna sem einna helst má lýsa með orðinu vanræksla. Engu að síður er um magnaða frásögn að ræða á öllum sviðum: hvað varðar efnistök, andrúm, textasmíð. Textinn stendur sterkur með sjálfum sér, sem kemur líkast til af því að Jeannette stendur sterk með sjálfri sér í gegnum alla frásögnina og öll sín uppvaxtarár.
Eeeeen, nú er það bókin Half Broke Horses sem er til umfjöllunar (áfram með smjörið Ásdís!). Ég segi hiklaust að jafnvel þótt um sjálfstætt verk sé að ræða er einstaklega áhugavert að lesa það í samhengi við The Glass Castle, því í þessari bók segir Jeannette frá móðurömmu sinni og uppeldi móður sinnar, og þegar maður hefur lokið við The Glass Castle er maður orðinn ansi forvitinn að vita hvaðan fólk eins og foreldrar hennar koma.
Hér er að mörgu leyti það sama í boði og í The Glass Castle: sterkur texti, sterkar persónur, fólk sem fer sínar eigin leiðir og er oft mjög á skjön við það sem gengur og gerist. Hér eru hins vegar engar lýsingar á hræðilegri vanrækslu sem gerir lesturinn auðveldari. Amman, Lily Casey Smith, er sérvitur og sjálfstæð, lendir í hremmingum, lifir allt af og hefur sína eigin sýn á lífið og tilveruna. Það er heillandi að fylgjast með lífshlaupi hennar og upplyftandi, sem er kannski einmitt það sem The Glass Castle er ekki. Þess vegna er ágætt að lesa þessa bók á eftir hinni til að halda trú sinni á mannkyn gangandi. Við þurfum þess.
Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Carol Birch. Áður en ég byrjaði á bókinni hafði ég einhverra hluta vegna bitið það í mig að þetta væri fyrsta verk höfundarins og var alveg agnofa meðan á lestrinum stóð. Þegar ég hafði lokið lestrinum og mátti lesa mér til um höfundinn komst ég að hinu sanna: Carol er margra bóka höfundur. Nú meikar heimurinn aftur sens.
Þetta er mögnuð saga. Hún er svona Charles Dickens og Moby Dick í einni bendu. Aðalpersónan, Jaffy Brown, og besti vinur hans, Tom, vinna fyrir sérstakan náunga, herra Jamrach sem flytur inn exótísk dýr á borð við tígrisdýr, páfugla og eðlur. Þegar hann hefur spurnir af því að sést hafi til alvöru dreka í Indónesíu sendir hann skósveina sína Jaffy og Tom á skip með það að markmiði að hafa uppi á þessum dreka.
Það er afskaplega margt vel gert í þessari sögu. Persónur eru vel dregnar og trúverðugar með sína skapgerðabresti og mannkosti, lýsingar á sögusviði og sögutíma gæða söguna fyllingu og lýsingu og ferðalag þeirra félaga kringum hnöttinn er stórskemmtilegt. Carol er hins vegar ekkert að víla það fyrir sér að fara óhefðbundnar slóðir og hristir allverulega uppí manni seinni hluta sögunnar þegar okkar menn komast í hann krappann.
Ég get sko alveg mælt með þessari.
Þá er það klappað og klárt og ég segi októberbókarabbi lokið. Vísdómsorð þessa bókarabbs koma frá C. S. Lewis:
I can’t imagine a man really enjoying a book and reading it only once.
Heyr heyr!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli