Um daginn rakst ég á heimasíðu sem Alejandra heldur úti um skipulagningu og tiltekt. Ég hef alltaf litið á sjálfa mig sem skipulagða manneskju en það er renna upp fyrir mér að ég á enn margt ólært í skipulagsmálum. Alejandra, aftur á móti, er með þetta allt á hreinu!
Ég varð svo innblásin af hugmyndinni um að gott skipulag í kringum mann hjálpi manni að halda góðu skipulagi í huganum að ég fór beint í skúffur og skápa og tók að endurraða af fullum krafti. Ég fylgdi ráðum Alejöndru og braut saman boli og buxur og raðaði þeim upp á nýjan veg.
Það sem kom út úr skipulagsvinnunni:
- Meira pláss: Miklu meira! Skúffa sem áður geymdi aðeins nokkra boli hefur nú að geyma alla bolina mína. Þannig að í stað þess að æfingabolir séu á einum stað, náttbolir á öðrum og hversdagsbolir á enn öðrum, get ég nálgast alla bolina í sömu skúffu. Miklu einfaldara!
- Sjáanlegri: Föt sem áður voru falin undir, bakvið eða fyrir aftan önnur föt eru nú sýnileg og fyrir vikið líklegri til að vera notuð. Ég á allt í einu miklu fleiri föt!
- Aðgengilegri: Nú eru engir bolir lengur undir eða bakvið aðrar flíkur svo það er margfalt einfaldara að seilast eftir þeim og ganga frá þeim aftur á sinn stað.
- Allt á sinn stað: Nú hefur hver flík fengið sinn stað sem gerir það auðvelt að ganga að henni næst og líka að ganga frá henni eftir þvott.
Lausnin felst í því hvernig maður brýtur flíkurnar saman. Þegar maður pakkar bol þétt og vel saman á hann auðveldara með að standa upp á rönd, og það er einmitt það sem maður vill. Ég braut alla boli, buxur og peysur þannig saman að þær kæmust auðveldlega fyrir í skúffu standandi upp á rönd. Þegar flíkurnar standa upp á rönd sér maður allt í skúffunni jafnvel, plássið nýtist betur því ekkert fer til spillis og það er auðvelt að næla sér í bol eða buxur.
Þetta er svo mikil snilld. Ég hvet ykkur til að gera slíkt hið sama. Taka til. Endurraða. Skipuleggja. Það sparar pláss og allt í einu á maður svo mikið af fötum!
Hér að neðan: kennsla í einföldu samanbroti fyrir bol og nokkrar fyrir-eftir myndir af skúffunum okkar. Og svo mæli ég með að horfa á vidjóið hennar Alejöndru, hún er svo mikið æði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli