Ég las svo margar góðar bækur á síðasta ári og því langar mig svo að taka saman lista yfir bestu bækurnar. Hins vegar virðist ég ekki finna góðan flöt á þá umfjöllun. Bestu bækurnar sem komu út 2013? Eða bestu bækurnar sem ég las á árinu? Topp 10? Topp 15? Topp 30 er nær lagi.
Kannski er vandamálið það að ég las einar 79 bækur á árinu. Það er slatti, er það ekki? Það er kannski skiljanlegt að ég eigi erfitt með að höndla þetta litla verkefni sem ég er búin að setja mér.
Kannski að ég setji þetta upp sem verðlaunaafhendingu!
Besta spennusagan: Gone Girl e. Gillian Flynn hélt manni við efnið en það er bókin Before I go to sleep e. S.J. Watson sem tekur heim verðlaunin í þessum flokki. Flott plott!
Besta sögulega skáldsagan: Vígroði e. Vilborgu Davíðsdóttur. The Invisible Bridge e. Julie Orringer var líka frábær.
Besta gamansagan: Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry e. Rachel Joyce. Léttur tónn en alvarleg undiralda.
Besta óskáldaða verkið: Stasiland e. Anna Funder. Ég held áfram að falla fyrir sögum frá austurblokkinni.
Besta vísindasagan/fantasían: The Golem and the Jinni e. Helene Wecker. Gangandi íkorni e. Gyrði Elíasson var líka frábær.
Besta dramað: The Light Between Oceans e. M.L. Stedman. Góð í gegn. Sló í gegn.
Best stílaða bókin: Ok, þetta er erfitt val því af bókunum sem ég las á árinu eru verk eftir Halldór Laxness, Hallgrím Helgason, Neil Gaiman og Annie Proulx. Hvað eiga þessir höfundar sammerkt? Þeir eru allir rosalegir stílistar. Fúff, valkvíði... Segjum jafntefli milli Roklands Hallgríms Helgasonar og Brekkukotsannáls Halldórs Laxness.
Þykkasta bókin(!): Wolf Hall e. Hilary Mantel. Þetta er mjög loðinn flokkur en þykkasta bókin er bara svo mikil bók og tekur svo mikið pláss. Hún fer inn á flokka eins og best stílaða, besta sögulega... svo það er eiginlega augljóst að þörf er á þessum flokki.
Eftirminnilegasta bókin: The Shipping News e. Annie Proulx.
Besta íslenska skáldsagan: Sjálfstætt fólk e. Halldór Laxness.
Áhugaverðustu efnistökin: Life After Life e. Kate Atkinson. Endurfæðingar, búddismi, seinni heimsstyrjöld... virkilega vel heppnuð saga hjá Kate.
Sérkennilegasta sagan: Það var ekki pláss fyrir fleiri bækur í flokknum Best stílaða bókin svo ég útbjó þessi verðlaun handa The Ocean at the End of the Lane e. Neil Gaiman. Hefði líka sómt sér undir Fantasíu ársins eða Bestu bók ársins...
Önnur verk sem vert er að minnast á: Fólkið í kjallaranum e. Auði Jónsdóttur, Human Croquet e. Kate Atkinson, Stjórnlaus lukka e. Auði Jónsdóttur, Prýðisland e. Grace McCleen, The Snow Child e. Eowyn Ivey, Stekk e. Sigurbjörgu Þrastardóttur, Jamrach’s Menagerie e. Carol Birch, Skugga-Baldur og Rökkurbýsnir e. Sjón, Kaldaljós e. Vigdísi Grímsdóttur.
Hvað með 2014 í bókum?
50 bækur í ár er markmiðið. Ekki of mikið en samt þannig að metnaðurinn er kitlaður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli