fimmtudagur, 15. mars 2007

Augu Ganesh

Við kíktum í sund í dag. Auroville skartar nefnilega 25 metra, hreinni og hlýrri laug. Við fórum seinnipartinn og komumst að því að laugin er of heit á þeim tíma, 32°C gráður takk fyrir.

Við komumst sem sagt að því að það er mjög mæðandi að synda í svo heitu vatni og ég fyrir mitt leyti komst að því að það er mjög erfitt að einbeita sér að bringusundi þegar bikínið er alltaf við það að snúast af manni. Svo er ég ekki vön að synda án sundgleraugna svo ég skreið fljólega upp á bakkann og sólbaðaði mig meðan Baldur tók fjórsund.

Við borðuðum á Ganesh Bakery um kvöldið og hittum þar þá Magnús sem kominn var til baka eftir tveggja daga vinnu á landareign sinni. Hann tók að lýsa því sem á daga hans hafði drifið frá því við hittum hann síðast.

Í miðri frásögn dró hann fram svarta og útbelgda pyngju og veiddi upp úr henni sérkennileg fræ, rauð með svörtum depli, sem hann hafði fengið litla gutta til að tína á landareigninni. Þau eru Augu Ganesh og eiga að veita ferðalöngum vernd. Við stungum þeim á okkur og ætlum ekki að verða viðskila við þau það sem eftir lifir ferðar. Verst að þau duga ekki sem sundgleraugu, það hefði verið svo hagkvæmt.

Engin ummæli: