föstudagur, 30. nóvember 2007

Allt í kössum

Í gær og í dag hefur hér á Þinghólsbrautinni átt sér stað lítilsháttar flóð, kassaflóð ef svo má segja, enda voru hér á tímabili einir tólf kassar opnir þegar best lét. Fyrst ber að nefna kassana sem við náðum í úr geymslunni hjá pabba, bara svo við ættum einhverjar spjarir á okkur. Þangað höfðu einnig borist bögglar alla leið frá Indlandi, einn frá Pondicherry, einn frá Kochi og tveir frá Himalaya, og við kipptum þeim að sjálfsögðu með úr geymslunni, forvitnin að drepa okkur. Ofan á þetta allt saman bættust sendingar frá amazon sem höfðu að geyma meginþorra jólagjafanna í ár.

Efri hæðin, sér í lagi hjónaherbergið, hefur því undanfarna tvo daga ekki verið sjálfri sér lík, heldur flæddi hér varningur út um öll gólf, og stundum niður stigann (segi svona). Við tókum á það ráð að bretta upp ermar og hófum að rífa upp úr öllum kössunum. Þegar við vorum að grúska í fatakössunum og jafnvel hálf í kafi ofan í einhverjum þeirra heyrðust oft undrunaróp og niðurbældar stunur: "Þetta hér, ég hélt ég hefði hent þessu", og svarið frá hinu: "Þú hefðir betur átt að henda þessu". Já, margt um lúnar og ljótar flíkur skal ég segja ykkur. En nú þegar búið er að koma þeim fyrir inn í skáp höfum við lítinn hug á því að rífa þær strax út aftur til þess eins að endurmeta fataplöggin, þá er nú einfaldara að geyma þær inní skáp og ganga bara ekkert í þeim.

Indlandsbögglarnir komu að mestu leyti heilu á höldnu heim þó þeir frá Himalaya hafi verið áberandi verr farnir en hinir tveir. Pappakassarnir höfðu liðast í sundur af hita, raka og síðast en ekki síst hroðalegri meðferð, og það eina sem hélt þeim saman var indverska sérviskan að sauma utan um alla póstböggla hvítt léreft. Guði sé lof fyrir það segi ég núna. Marmafíll hafði brotnað, einstaka bók hafði €krumpast og geisladiskahulstur mölvast í hundrað mola, en ég geri ekki meiri kröfur en þær að fá bögglana og innihaldið í fangið. Takk, India Post.

Amazon sendingarnar voru draumur við hlið indversku bögglana, ekkert ryk eða mold þar á bæ, aðeins girnilegar gjafir, sumar hverjar þurfti ég að fela í snarhasti, en aðrar bíða núna upp í skáp eftir því að ég pakki þeim í jólapappír og hnýti á þá slaufu.

Eins og það var nú skemmtilegt að grafa í dótinu sínu og fá algjört flash back við að opna indversku bögglana er ég afskaplega fegin að því verki sé lokið. Nú er allt komið í röð og reglu og einhverra hluta vegna er ég oft og tíðum mikið fyrir röð og reglu.

P.s. Myndin glæsilega af okkur skötuhjúum er í boði Fernando.

Engin ummæli: