Úff! Í dag var ég veikur heima. Ég var reyndar orðinn slappur í gær en hélt það væri bara þreyta en svo var ekki. Í morgun vaknaði ég snemma til að sjá hvort ég væri ekki orðinn hress en hringdi í Kidda (aðalgaurinn í vinnunni) og sagði honum að því miður kæmist ég ekki til vinnu í dag.
Næst á dagskrá var að fóðra og vigta Bjart og Rúdólf. Fyrir mat voru þeir sem hér segir: Bjartur 96g og Rúdólfur 59g. Eftir mat var Bjartur svo orðinn 105g og Rúdólfur 65g enda voru þeir vel útbelgdir. Eftir fóðrun fór ég nú bara að sofa í félagsskap Kisu og við sváfum og sváfum og sváfum. Á meðan ég var sofandi var Ásdís að stússast um íbúðina og læra. Ég drakk mikið af tei, c vítamíni, sólhatti og rauðum pipar í dag. Ég held að það eigi stóran þátt í því að ég sé að hressast þó ég sé nú ekki orðinn alveg góður.
Svo fór Ásdís til Láru tannlæknis. Á meðan hún var þar þá leyfði ég Kaniku að fara aðeins út í garð að fá ferskt gras. Nei hún er ekki svona hlýðin heldur var hún í löngu bandi. Svo horfði ég á myndina Swordfish (ekkert spes) en náði ekki að klára því að Biggi vinur kom og kíkti á mig. Svo sátum við bara í mestu makindum inni í stofu að skoða bækur og svo lít ég upp og sé að Biggi er steinsofnaður. Ég notaði tækifærið og tók myndir af því. Á meðan Biggi lá sofandi í stólnum var bankað á útidyrnar og Biggi hrökklaðist þá á lappir því hann vissi nú ekki alveg hvað var á seyði. Ábyrgðina á bankinu báru foreldrar mínir sem voru komin að kíkja á kjúklinginn. Þau komu nú ekki bara að kíkja heldur komu þau færandi hendi beint úr hinni frábæru verslun Fjarðarkaupum. Það sem þau voru með var: c vítamín, valhnetubrauð, greipsafi, hnetusmjör, jógúrt, meira jógúrt og vanilludesert. Jahá! Svo þegar þau voru nýfarin þá kom Ásdís heim og var hún þá búin að koma einhverri nýjung á heimasíðuna. Það er komin spurning á dagbókina, svona til gamans. Stundum verður þetta gáta eða skoðanakönnun og ykkur er velkomið að svara, reyndar eru allir lesendur eindregið hvattir til að svara spurningunni, því það er svo gaman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli