Úff, erfiður dagur, skóli frá 8-16, heill vinnudagur í pælingum. Bestu tímarnir eru mannfræði barna, þeir eru alveg frábærir. Við erum eins og er að lesa etnógrafíuna hennar Jónínu um mæður og börn í Guinea-Bissau, nánar tiltekið í Biombo sýslu. Það er magnað að lesa um hugmyndir fólks sem snúa að barneignum, meðgöngu, getnaði og barnauppeldi. Fólk er eins misjafnt og það er margt. Sem dæmi má nefna tvíburafæðingar, hjá sumum þjóðarbrotum eru þær tákn um frjósemi og hamingju en hjá Guinea fólki er hún talin ónáttúruleg, aðeins dýr fæða fleiri en eitt afkvæmi í einu, og því er hefð fyrir því að farga öðrum tvíburanum. Þessar hugmyndir eru reyndar að breytast með auknum samskiptum og áhrifum frá Vesturlöndum. Ég held ég tjái mig ekki meira um mannfræði í bili, ég finn að ég gæti haldið áfram í langan tíma.
Við erum komin með nýjan kennara í kenningum í félagsvísindum. Námskeiðið er nefnilega þrískipti, farið er í kenningar þriggja kalla (Marx, Weber ,Durkheim) og því eru þrír kallar sem kenna námskeiði. Yfirferð yfir kenningar Marx er lokið og nú er komið að Weber. Sá sem það kennir er strangur kall sem hræddi alla í bekknum (enda stjórnmálafræðingur) og minnti mig svo um munaði á Hauk sögukennara í MR. Þeir sem til þekkja vita hvað ég á við þegar ég segi að helst vildi ég hlaupa út grenjandi, segja mig úr kúrsinum og þurfa aldrei að snúa aftur. Ekki nóg með að þeir séu líkir að innræti, þeir eru nauðalíkir í útliti, ætli þetta séu bræður?
Þess ber að geta að Háskólinn hélt upp á níræðisafmæli sitt í dag, í tilefni þess fengum við nemendur skúffukökusneið og léttmjólkurfernu. Til hamingju með afmælið HÍ! Annað markvert gerðist í dag, ég ákvað að stofna leshóp og fékk Lísu til liðs við mig. Við vissum í fyrstu ekki hvað við ættum að kalla hann en þar sem við urðum að okkar mati að finna nafn á hann í dag þá lögðum við hausa tvo í bleyti og komum upp með nafnið Verð að skilja! Þetta einkennir mannfræðinema mjög mikið, þegar kemur að kenningarlegri umræðu skilur maður ekkert í því sem maður verður að skilja.
Annars fórum við að lyfta og það var frábært, ég var að taka bekkpressuna í fyrsta skipti og er þvílíkt stolt af mér:) Ég læt þó enga tölfræði fylgja með, látum það liggja milli hluta. Við fórum síðan á Bókhlöðuna þar sem ég tók einar 6-7 bækur, allar eftir Isabel Allende nema ein. Ég ætla núna að leyfa mér að lesa allar bækurnar hennar, ég las nefnilega um daginn Hús andanna og varð svona líka hrifin. Við settum líka heimasíðuna inn á netið en það gekk eitthvað illa, hún vildi ekki keyra upp og að endingu slökktum við á apparatinu og fórum snemma að sofa.
P.s. Við keyrðum yfir nýja brúna í dag, hún er ekkert smá mannvirki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli