laugardagur, 20. október 2001

Ég fór á námskeið í dag varðandi Mentorverkefnið. Námskeiðið samanstóð af þremur fyrirlestrum, einn um samskipti, einn um tengslakenningar og síðan náði ég aldrei hvað sá þriðji fjallaði um. Þetta námskeið átti að kynna okkur Mentorstarfið, segja okkur við hverju við mættumst búast af börnunum og af okkur sjálfum, hvernig gott væri að bregðast við ýmsum aðstæðum o.s.frv. Hugmyndin að slíku verkefni kemur frá mentorverkefninu í Perach í Ísrael. Mentorstafið er margþætt en aðalatriðin eru þessi:

Orðið mentor er alþjóðlegt og er notað um ráðgjafa, leiðbeinanda sem aðstoðar yngri, óreyndari aðila við að víkka sjóndeildarhringinn. Mentor veitir stuðning, er fyrirmynd, eins konar stóri bróðir eða systir. Mentorhlutverkið sem þið takið við núna snýst ekki um að vera sálfræðingur eða kennari viðkomandi barns. Öllu heldur snýst það um það að skapa trúnað og traust, sýna samkennd og tillitssemi, tengja saman virkni og hlýjur í leik og starfi. Samverustundir mentors og barns þurfa ekk i að vera úthugsaðar og skipulagðar því oftast er návistin mikilvægust. Tengslin styrkjast þegar barn og mentor eru saman.

Að vera mentor snýst um að gefa sjálfum sér tíma með barninu, leyfa sér að læra af samskiptunum við barnið, taka þátt í lífi barnsins og læra að skilja þann heim sem barnið lifir í og læra að skoða sjálfan sig í nýjum aðstæðum. Margir mentorar telja að þeir hafi öðlast jákvæða reynslu með því að eignast yngri vin, það veiti þeim tækifæri til að setja sig inn í hugsunarhátt barna og hjálpi þeim aðskilja mismunandi gildismat, menningu og sýn á lífið og tilveruna.

Að vera mentor þarf hvorki að vera erfitt né erilsamt. Það snýst einfaldlega um að vera sá sem maður er og veita öðrum einstaklingi athygli. Mentor er fullorðin fyrirmynd sem getur eflt jákvæða reynslu barna og þannig haft jákvæð áhrif á sjálfsmat þeirra.

Langtíma markmið Mentorverkefnisins Vinátta er að bæta við möguleika barna til lífsgæða með því að bæta við reynslu þeirra jákvæðum upplifunum af samveru við fleiri fullorðna aðila en eru í lífi þeirra.
Í lokin fengum við síðan að vita hvaða barn við eigum að vera með, ég verð mentor sjö ára stelpu.Við hittumst einu sinni í viku, þrjá tíma í senn. Þetta er alveg ótrúlega spennandi og ég hlakka mikið til að eignast lítinn vin og ég er sko búin að plana hvað við getum gert saman, farið niður í fjöru og tínt skelja, tínt laufblöð og þurrkað þau, safna skordýrum í krukku, fara á söfn, perla, púsla, lita o.s.frv. Ég er með endalausar hugmyndir og sú nýjasta er að nota einn dag í að taka myndir, labba um bæinn og leyfa stelpunni að taka eins margar myndir og hún vill. Þetta er svo lítið mál þegar maður er með stafræna myndavél, þá þarf maður sko ekki að hugsa um að nota filmuna vel heldur tekur maður eins margar myndir og maður vill og af hverju sem er. Síðan fæ ég Baldur til að brenna þær á disk og ég get gefið stelpunni.

Enn og aftur get ég ekki orða bundist yfir háttalagi veðursins, það er þetta blíðskapar veður á daginn en síðan skellur á þessi drungalega þoka, svo þétt að manni stendur ekki á sama. Baldur var að segja mér um daginn að þegar þoka væri þýddi það að vampírur væru í grenndinni og nú vil ég helst ekki vera ein á vappi þegar þoka skellur á. Í gær var hún svo þykk að ég sá ekki Rauðavatn þegar ég keyrði framhjá því á leið til pabba, og það er nú ansi mikið, heilt vatn sem sést ekki fyrir hvítu skýi.

Jæja, læt þetta nægja í bili, hef öðrum hnöppum að hneppa, á morgun er opnunarhátíð Mentorverkefnisins og þar hitti ég barnið "mitt". Það á víst að gera ratleik úr þessu, mentorar og barn eiga að finna hvort annað í ratleik sem fer þannig fram að hvert par nælir á sig krúttlega mynd af hundi og síðan á maður að finna þann sem er með alveg eins hundamynd og maður sjálfur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Ásdís, þetta er ég, barnið "þitt"..
Mikið rosalega er gaman að hafa fundið þetta núna 11 árum seinna!
Fór að hugsa um þig um daginn þegar ég fann mynd af mér með kanínuunga sem þið Baldur áttuð minnir mig, og datt í hug að gúggla þig.. svo skemmtilega vill til að ég fann þessa færslu og það var ekkert smá gaman að lesa hana :-)
Kær kveðja, Karítas Bjarkadóttir (mentorbarnið þitt)

ásdís maría sagði...

Jiminn hvað það er gaman að heyra frá þér Karítas! Aldrei hefði mig grunað þegar ég skrifaði færsluna fyrir 11 árum að þú kæmir til með að lesa hana síðar meir :)

Hvað er annars að frétta af þér? Ertu í skóla og ef svo er, hvað ertu að læra? Sjálf er ég búin að vera á flakki síðan ég kláraði mannfræðina, mest búin að vera í Indlandi að ferðast og jógast, algjört æði! Leyfðu mér endilega að heyra hvað þú ert búin að vera að stússast, mátt líka senda mér línu á asdisel hjá gmail ef þú nennir :)

Enn og aftur, frábært að heyra frá þér og þúsund þakkir fyrir að kommenta á færsluna, mér þykir ekkert smá vænt um það :)

Bestu kveðjur frá mentornum þínum,

Ásdís