Í dag var mikilvægur dagur, ég hitti nefnilega barnið sem ég er mentor fyrir. Opnunarhátíðin var haldin í safnaðarheimili Lauganeskirkju og byrjaði kl. 16. Ratleikurinn góði með hundamyndunum fór fram um hálf tíma síðar. Við mentorarnir hlógum dátt á meðan á honum stóð því út um allt voru lítil börn á vappinu með litla mynd af hundi í höndum sér, glápandi á okkur og rýnandi í þessar litlu myndir. Ég var eiginlega strax fundin, allt í einu stóð fyrir framan mig lítil og feimin stelpa, hélt myndinni sinni þétt upp að sér og stóð síðan bara og þagði. Ég bað um að fá að sjá myndina hennar og hún var eins og mín, jibbí ég hafði fyndið barnið mitt, eða réttara sagt barnið hafði fundið mentorinn sinn. Hún heitir Karitas og er 7 ára gömul.
Eftir að hafa heilsað upp á foreldrana, spjallað við Karitas og fengið mér köku var farið í leiki, eldri krakkarnir (ellefu ára) fóru í actionary en við hin með litlu snúllurnar settumst í hring og síðan var farið í hvísluleik og gátuleik. Gáturnar voru ekki auðveldar og ég varð mjög fegin þegar ég sá hina mentorana alveg eins ráðalausa og mig. Börnin áttu hinsvegar ekki í miklu erfiðleikum með þær. Dæmi: Af hverju eru storkar með svona langar fætur? Til að þeir náið niður á jörðina! Hvað er sameiginlegt með jakka og hesti? Nú, fóðrið. Hvaða klukka sýnir aðeins réttan tíma tvisvar á sólarhring? Klukka sem er stopp. Á hverju stóð Palli þegar hann fór upp á Esjuna? Á löppunum. Hvísluleikurinn var einnig mjög skemmtilegur og við hlógum dátt að allri vitleysunni sem úr varð, t.d var orðið háhyrningur orðið að orðinu hestungur í lokinn!
Hátíðinni slúttaði síðan um sex leytið og þá fórum við Baldur í matarboðið góða á Eggerts- götunni. Þar fengum við rófur og gulrætur með hrísgrjónum, allt mjög gott nema hvað helst grænmetissafinn. Jæja, þá er kominn háttatími, stór dagur framundan. Ciao.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli