mánudagur, 22. október 2001

Í seinni tímanum í mannfræði barna í dag fengum við til okkar skemmtilegan fyrirlesara sem var að tala um vinnu barna á Íslandi. Við Baldur sátum frekar framarlega og þeir sem til þekkja vita að Baldur á oft mjög erfitt með að halda sér vakandi í tímum. Hún tók greinilega eftir því og spurði hann hvort hann væri mjög þreyttur. Eina svarið sem hún fékk var kinkandi kollur. Eftir tíma vorum við síðan að hlæja að því að hún skildi hafa tekið eftir þessu því í raun var hann óvenju vakandi, sat meira segja uppi og fylgdist með. Hún ætti að sjá hann þegar kennarinn kennir, þá liggur hann annað hvort fram á borðið eða situr með hausinn lafandi ofan í bringu :)

Ég gleymdi að minnast á það í gær að á þessari hátíð var krökkt af fréttamönnum, Ásdís ljósmyndarinn frá Mogganum tók fullt af myndum af okkur Karitas þegar við vorum að hittast í fyrsta sinn, svaka stuð. Ég býst því jafnvel við að það verði mynd af okkur í Mogganum en það er náttúrulega ekki víst. Ég vona það þó, ég sagði nefnilega Karitast frá því og hún varð svo spennt, hélt að núna yrði hún sko fræg!

Engin ummæli: