Við vorum ósköp dugleg í kvöld, elduðum mat í fínni kantinum og höfðum það kósý. Ég bakaði nefnilega míní pizzur, ítalska snúða og bjó til súpu. Nú liggjum við afvelta á meltunni (þá einkum og sér í lagi hann Baldur haha) með tærnar upp í loftið. Reyndar er ég hrædd um að við fáum ekki mikið að gæða okkur á snúðunum því við erum með gesti í heimsókn, pabba og brósa, og þeir eru í þessum mi casa, tu casa fíling. Ástæða þessa að þeir droppuðu við svona seint er sú að Andri brósi er að fara að halda eitthvað sjó á morgun á árshátið MR á Broadway. Hann og fleiri stæltir strákar ætla að leika löggur og hann vantaði lögguhúfu. Hann leitaði því til mín því ég á stúdentshúfuna frá því í denn (1999 hehe) og hann hafði þá grillu í hausnum að fá hana lánaða og nota hana í þessu sjói. Ég held að það gangi ekki upp. Húfan er nefnilega allt, allt, allt of lítil á hans haus og þetta kom afkárlega út, leit helst út eins og hann væri með pottlok á hausnum.
Jæja, ég reyndist þá sannspá eftir allt saman (eða á maður kannski að kalla það að hafa fengið ósk sína uppfyllta?). Það kom nefnilega mynd af okkur Karitas í Mogganum í dag, jibbí, við vorum frægar í dag! Dögg minntist á myndina í dag í leshópnum og sagði að hún væri bara nokkuð góð og þá varð ég rígmontin.
Jæja má ekki vera að þessu, ég á eftir að lesa alveg heilan helling fyrir umræðutímann á morgun hjá Svani, hann er nú snar, ætlast til þess að við lesum rúmlega 200 blaðsíður fyrir einn umræðutíma. Við eigum nefnilega að vera búin að lesa hina mjög svo spennandi titluðu bók The Protestant Ethics and the Spirit of Capitalism eftir Webba. I´ll see that happen!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli