sunnudagur, 28. október 2001

Sjö manna fjölskylda!

Afsakið biðina, við höfum verið mjög upptekin, við fengum nefnilega ótrúlega gjöf í gær og við höfum verið upptekin af henni síðan. En áður en ég fer út í þá sálmana var ég víst búin að lofa að greina frá fyrsta mentorfundi okkar Karitas sem var alveg æðislegur, hún er algjör snúlla.

Ég sótti hana í skólann og síðan fórum við heim og hún sýndi mér herbergið sitt og kisuna sína og síðan röltum við niður á tjörn og gáfum öndunum, svönunum og gæsunum brauðmola. Eftir það fórum við að tína laufblöð og blóm og söfnuðum því saman og þegar heim var komið skiptum við fengnum bróðulega á milli okkar, þú færð eitt laufblað og ég fæ eitt, þú færð eitt blóm og ég fæ eitt....

Þetta var alveg frábær dagur og ég komst að því að ég hef mjög ranga mynd af börnum. Þegar ég var í Frakklandi að passa 8 ára stelpu þá varð ég að gera allt fyrir hana, hún mátti ekki ná í glas upp í skáp, hún mátti ekki hella sjálf í glasið, ég varð að baða hana og það kom aldrei til greina að hún fengi að vera ein heima þó svo að við værum rétta að skreppa út í bakarí.

Enda var Juliette ótrúlega ósjálfstæð greyið, fékk aldrei að gera neitt. Þetta er mín reynsla af börnum og síðan er ég auðvitað með strákinn í liðveislunni og þar sem hann er framheilaskaðaður þarf að gæta hans hvert augnablik. Mér brá því ansi mikið þegar ég komst að því að Karitas, sjö ára, gengur alltaf ein heim út skólanum, fær sér að borða og sér síðan um sig alein þar til foreldrarnir koma heim út vinnunni. Maður sér líka stórmun á þeim tveimur, Juliette og Karita.

Um kvöldið fórum við í hina hefbundnum pizzu hjá pabba og þegar við komum heim brá okkur heldur betur í brún. Baldur var á leið inn í sturtu sem er inni í þvottahúsi þegar hann gaf hann frá sér undrunaróp og bað mig að koma í hvelli. Ég ætlaði ekki að þora að kíkja inn í þvottahús, alveg viss um að þar hengju dauðar rjúpur eða einhvað álíka en það var sko aldeilis ekki því á gólfinu var stórt blátt búr og þar inn í var hvít kanína!

Þegar við fórum að virða hana betur fyrir okkur sáum við hrúgald í einu horninu og viti menn, þarna lágu tveir pínulitlir kanínuungar, annar ljósbrúnn og hinn nánast svartur. Þeir lágur þarna horaðir og kaldir á plastbotni með ekkert undir sér, ekki einu sinni hálm.

Daginn eftir fréttum við að ungarnir væru eins vikna gamlir, fæddust föstudaginn 19. október, sex í goti, fjórir dánir og mamman gefur þeim ekki spena. Barnabörn fólksins fyrir ofan áttu þessar kanínur og vildu nú losna við þær og hvað var gert, okkur var boðið að fara úr fjögurra meðlima fjölskyldu yfir í sjö meðlima fjölskyldu. Auðvitað sögðum við já takk!

Þeir eru nefnilega alveg yndislegir ungarnir en mjög horaðir og nú þurfum við að bretta upp ermarnar til að halda í þeim lífinu. Við byrjuðum strax á því að setja búrið inn í þurrkherbergi til kisu (sem er mjög sátt við það ótrúlegt en satt) þar sem er mjög heitt, settum það alveg upp við heita leiðslu, settum síðan fullt af saginu hennar Fríðu í búrið, ungarnir voru síðan settir í þvottapoka inn í búr næst þessari hitaleiðslu.

Eftir það var farið út að reita hellings arfa fyrir mömmuna sem hún tróð í sig. Hún var ekkert smá svön, át og át og át. Eftir það var farið á stúfana, við fórum í apótekið og keyptum hitapoka og tvær sprautur og síðan í búðina að kaupa lífræna mjólk. Þegar heim var komið gáfum við englunum að drekka og það sem sá svarti var svangur, litli engillinn. Hann er nefnilega miklu horaðri og minni en sá ljósbrúni.

Við skírðum þá strax, sá ljósi heitir Bjartur, það var ég búin að ákveða áður en ég vissi að við fengjum þá (þ.e. þegar ég vonaði að við fengjum á). Hinn svarti heitir Rúdólfur af því að þessir ungar minna mig svo á hreindýr, með svona flatt trýni, þannig að Baldur sagði að hann ætti að heita Rúdólfur. Mamman heitir Kaníka. Við erum reyndar ekki alveg viss um að þetta séu strákar þannig að ef við höfum rangt fyrir okkur erum við með back-up-names, Bjartur verður þá Birta og Rúdólfur verður þá Rakel eða Rut (við munum ekki eftir neinni frægri hreindýrskú!).

Seinna um kvöldið fórum við í afmæli til Sóveigar og Einars, það var mjög gaman og mikið hlegið. Í gær var fyrsti vetrardagur og í tilefni þess féll fyrsti snjórinn. Áðan vorum við síðan í sunnudags- matarboðinu góða, það var mjög kósý líka eins og ávallt.

Þegar við komum heim gáfum við strákunum úr sprautunum en síðan ákváðum við að þetta gengi ekki lengur, þeir verða að fá kanínumjólk. Baldur tók þá Kaníku og hélt henni fastri og á meðan leyfði ég englunum að sjúga eins og þá lysti. Mikið svakalega voru þeir svangir, það fékk bara á mann að sjá það. Núna liggja þeir sælir og mettir inn í búri, undir handklæði, nýþvegnir meira segja. Mamman meig nefnilega á þá í gær, mjög lekkert.

Engin ummæli: