Hæ öll sömul, þessi færsla verður í styttri kantinum því klukkan er orðin frekar margt og ég er hálfsofandi held ég bara. Dagurinn í dag var æðislegur, fyrsti Mentorfundurinn okkar Karitas var í dag og ég segi betur frá því á morgun.
Ég ætla nú eiginlega að kynna tvær nýjungar til sögunnar, nei reyndar þrjár, ein er gömul nýjung sem við gleymdum alltaf að segja frá. Sko, dagbókin er komin með netfang eins og sjá má hér til vinstri og þar megið þið lesendur góðir endilega senda inn ýmsar fyrirspurnir og tillögur að breytingum á síðunni, þ.e breytingum til batnaðar:) Þetta var gamla nýjungin. Hinar nýjungarnar er: a) hugleiðingahorn og b) vefspjall.
a) Hugleiðingahornið er ætlað til skemmtunar og mun samanstanda af ýmsum spakmælum, orðtökum og pælingum sem menn hafa komið í skemmtilegan orðabúning. Við ákváðum að kalla þetta hugleiðing líðandi stundar því við erum ekki viss hversu oft við getum skipt um hugleiðingu, þar af leiðandi köllum við þetta ekki hugleiðing dagsins eða eitthvað álíka. Nú biðjum við ykkur, lesendur góðir, að vera með í þessum hugleiðingaskiptum, sendið alveg endilega inn skemmtileg spakmæli, vel mæld orð eða eitthvað sem ykkur finnst fallegt eða fyndið. Sendið þetta bara á dagbókina eða okkur, nú eða í vefspjallið og við söfnum því saman og getum þannig gert þetta meira víxlverkandi (svo ég noti nú óþolandi orð!). Þannig getið þið verið með og þannig getum við fengið fleiri spakmæli en okkur hefði ella dottið í hug og þannig skipt oftar eða reglulegar um hugleiðingu.
b) Vefspjallið er nýr þáttur hér í dagbókinni, þetta er einskonar ræðupallur ykkar, hér getið þið nefnilega tjáð ykkur um það sem við erum að rita í þessa dagbók eða þá um það sem efst er á baugi. Við hvetjum ykkur eindregið til að notfæra ykkur þetta.
Jæja, ég held að þetta sé komið í bili, þetta varð víst ekki eins stutt færsla og ég hafði ætlað mér en það stafar af þörf minni til að taka allt mjög skýrt fram í því sem hér kom fram að ofan (a.k.a. endurtaka mig). Segi það gott í bili, sjáumst á morgun.
P.s Ég gleymdi einu, við bættum við um daginn þættinum Linkar hér í hægri dálk eins og þið sjáið. Þetta eru linkar á heimasíður sem okkur finnast áhugaverðar og ef þið vitið um e-r áhugaverðar síður látið okkur þá endilega vita!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli