fimmtudagur, 25. október 2001

Komið nú sæl og blessuð! Fimmtudagurinn byrjaði, eins og nokkrir aðrir dagar þessarar viku, á því að við Ásdís ætluðum að vera voða dugleg og vakna snemma til að fara í göngutúr. Svo skemmtilega vill til að þessir göngutúrar verða alltaf göngudúrar og eru alveg hreint ágætir. Á fimmtudögum er tími hjá okkur báðum í skólanum þar sem við hlustum á Jónínu Einarsdóttur þylja hinar ýmsu pælingar um líf barna. Þessir tímar eru í Lögbergi í pínuponsulítilli stofu sem verður loftlaus á nóinu en það er ástæðan fyrir því að ég verð stundum syfjaður í þeim tímum. Ég sofnaði nú samt ekkert og tók ágætan þátt í umræðum um líf barna í Sierra Leone. Svo fór ég nú bara í vinnuna, sem ég hafði skotist úr til að komast í tíma.

Um kvöldið fórum við svo í matarboð til Stellu ömmu og Péturs afa þar sem við fengum salat og dýrindis síld sem amma hafði steikt svo var ís í desert. Þar voru bæði pabbi og mamma mætt á svæðið enda síldarfólk hið mesta. Eftir að allir höfðu kýlt út á sér vömbina horfðum við á Kastljósið þar sem Megas var í viðtali, það var kúl.

Sumsé, alveg frábær dagur, eins og þeir eru nú allir. Ég held að við séum bara mislagin við að taka eftir því.

Engin ummæli: