fimmtudagur, 3. janúar 2002

Gleðilegt ár!

Jæja þá er ég aftur sestur við tölvuna. Hvar á ég að byrja? Hmmm... Jólin voru frábær og ekkert smá gott að taka svona frí til að hlaða batteríið aftur. Aðfangadagskvöldi eyddum við með Elfari og Andra þar var mikið hlegið og margir pakkar opnaðir. Daginn eftir var aftur pakkadagur en í þetta sinn var það bara Ásdís sem opnaði pakka það vildi nefnilega svo skemmtilega til að afmælið hennar bar upp á jóladag að þessu sinni. Ég tók mér frí á mogganum til þess að fríið yrði algjört. Mér fannst líka frábært að ná að byrja að lesa bók sem ég fékk í afmælisgjöf frá Ásdísi í fyrra um píramídana, svo er ég að lesa eina sem hún gaf mér í jólagjöf nefnilega Silmerillinn eftir Tolkien. Enn sem komið er er ég bara búinn með eina af bókunum sem ég fékk í jólagjöf það er bókin um flissarana eftir Roddy Doyle, skemmtileg bók sem Ásdís gaf mér. Ég er líka að lesa kennslubók í nuddi sem Stella og Kristján gáfu mér og gengur vel með hana.

Þessa dagana er ég að koma skikki á hlutina aftur lyfta, synda, sofa, vakna og éta venjulega. Það gengur ágætlega og ég fór með Bigga að lyfta áðan og tókum við bak og tvíhöfða sem eru ákaflega skemmtilegar æfingar og þrátt fyrir mikið át og litla hreyfingu um jólin þá var maður nú barasta ekkert slæmur. Reyndar bara langflottastur.

Um áramótin skutum við ekki upp einni rakettu en í staðinn átum við massamikið af pizzu ala pabbi sem er eitthvað það besta sem hægt er að hugsa sér og það ótrúlega er að hún verður betri með hverju árinu sem líður. Eftir mat ætluðum við svo að labba á næstu brennu með mömmu og pabba og lögðum af stað vígreif með kyndla og stjörnuljós en sökum mikillar rigningar og roks snerum við aftur eftir korterslabb og bjuggum bara til okkar eigin brennu úr kyndlunum þannig að í raun fórum við langa leið að næstu brennu. Svo var bara farið inn í hlýjuna að horfa á skaupið og éta meira og þannig hafa hátíðarnar verið éta og éta meira en fyrir mér er þetta hátíð ljóss, friðar og matar.

Engin ummæli: