sunnudagur, 23. desember 2001

Þorláksmessa

Í kvöld fórum við til mömmu og pabba í kvöldmat sem vant er á sunnudögum. Eftir gómsætar kræsingar fórum við á Laugaveginn þar sem ég fann afmælisgjöf númer 22 handa Snorkstelpunni. Það var múgur og margmenni í bænum og meiri múgur og enn meira margmenni sem var einmitt ástæðan fyrir þessarri bæjarferð.

Að sjálfsögðu hlaut maður að þekkja einhver andlit í tugþúsunda hópi ojújú seisei. Þarna var fólk af öllum stærðum og gerðum og meira að segja einhver kall sem var svo tötsí að hann ætlaði nú bara að reyna að fá pabba til að gefa sér einn á lúðurinn en við bara hlógum að honum. Eftir að hafa labbað upp og niður Laugaveginn og upp aftur þá fórum við og fengum okkur desert númer tvö og höfðum gaman af og ekki spillti markviss og notalegur taktur frá Bretagne og undurblíð álfarödd Alans Stivell.

Þessi Þorláksmessa var nú bara ekkert mess og engin skata hjá okkur en hins vegar fór jólabaksturinn fram á einu bretti í dag og hef ég ekki tölu á sortum úr galdraverksmiðju Snorkstelpunnar. Jæja nú fer ég í dvala enda búinn að borða barrnálagrautinn hennar mömmu.

múmínsnáði

Engin ummæli: