föstudagur, 11. janúar 2002

Ætli múmínálfarnir stundi jóga?

Í gær var ég aldeilis duglega að rækta á mér kroppinn. Við fengum nefnilega í gegnum lúguna bækling frá líkamsræktarstöðinni Betrunarhúsið þar sem manni er boðið að mæta frítt til þeirra í opna tíma og tækjasal í heila viku gegn því að maður framvísi þessum bæklingi. Ég hringdi því strax í mömmu og í gær fórum við í fyrsta tímann, taibo. Úff, ferlega erfitt, ég hélt það myndi líða yfir mig í lok tímans, það var svo ferlega loftlaust þarna inni og maður þurfti svo sannarlega á fersku lofti að halda.

Um kvöldið mættum við síðan aftur til leiks, en núna til að leggja stund á jógafræði. Sá tíma fólst í því að sitja á risastórri dínu í lótusstellingunni og anda djúpt inn og blása út. Síðan fórum við að gera ýmsar skrítnar æfingar sem allar hétu dýranöfnum, íkorninn, svanurinn, fiðrildið o.s.frv.

Það kom mér skemmtilega á óvart að ég kannaðist við nokkrar stellingarnar því ég gerði þær þegar ég var yngri, t.d. stellingin þar sem maður situr ekki á rassinum heldur á hálsinum og herðunum með fætur beint upp í loft og heldur undir mjöðmunum. Ég horfði nefnilega oft á sjónvarpið frá þessu sjónarhorni þegar ég var lítil.

Í heildina litið fannst mér jógað ósköp þægilegt og áreynslulítið en í dag finn ég fyrir heiftarlegum harðsperrum í mjóbakinu, en kennarinn benti einmitt á það að flestar þessara æfinga reyndu mjög á það. Ég veit þá allavega að ég stóð mig í stykkinu.

Undanfarin þrjú kvöld höfum við Baldur verið að lesa um múmínálfana í Múmíndal í bókinni Pípuhattur galdrakarlsins. Ég held ég hafi sjaldan lesið eins fyndna bók, við hlæjum svo mikið að tárin streyma niður kinnarnar og Baldur rétt kemur upp úr sér orðunum milli hláturkviða. Ég mæli eindregið með þessum snilldar bókmenntum.

Engin ummæli: