Þá erum við komin með nýja dagbók á netið, blogger dagbókina sem á eftir að auðvelda okkur þessi dagbókarskrif til muna. Við eigum eflaust eftir að vera ansi duglega að skrifa svona fyrst um sinn, vonum bara að það haldist sem lengst:)
Í gær gláptum við á Being John Malkowich í annnað sinn (fyrir Baldur í 3. sinn), sú mynd er gjörsamlega frábær. Ég man að ég heyrði góða dóma til hennar alla leið til Frakklands þegar ég var þar árið 2000, en sökum gífurlega fordóma í garð leikarans sjálfs gat ég sko ekki hugsað mér að sjá einhverja sjálfsævisögu hans (þannig hugsaði ég virkilega, herre gud).
Síðan plataði Baldur mig til að horfa á hana því Ólöf og Jói áttu myndina á DVD og vá, ég varð sko hrifin! Ef einhver mynd er þess virði að eiga og glápa á aftur og aftur, þá er það þessi. Reyndar held ég að franska myndin Amelie standi þessari jafnfætis, ef ekki framar. Ég hvet því alla að sjá þessar tvær, innan um allan sorann í kvikmyndageiranum skín þetta sem gull (háfleygur fugl get ég verið).
Jæja, ég má ekki vera að þessu lengur, við skötuhjú erum að fara að trítla niður á Bókhlöðu, ég þarf að leggjast aðeins yfir lesefni hagrænnar mannfræði því ég á víst að vera með kynningu á ritgerðinni á morgun og því er ekki seinna vænna en að byrja að sanka að sér heimildum núna. Í hádeginu er síðan fyrirlestur um þjóðernishyggju og rasisma í Norræna húsinu, það er spurning hvort maður kíki.