miðvikudagur, 20. mars 2002

Sinfóníuhljómsveit Íslands í I.Q. test

Núna þegar ég dvel öllum stundum á Bókhlöðunni hef ég þurft að nýta mér nestisaðstöðuna þar en hún er eitt herbergi, glugga- og ofnalaust, brrrr.

Venjulega situr maður bara og snæðir sitt vonda skyr.is eða samloku með hnetusmjöri og hlustar á sínar eigin hugsanir. Oft getur maður þó ekki annað en lagt eyrun við það sem aðrir eru að segja en ég held ég fari að leggja þann sið niður því svo oft heyrir maður soddan vitleysu að manni blöskrar.

Núna áðan sátu þar tvær stelpur og voru að tala um eitthvað par sem er búið að vera sundur og saman svo lengi sem menn muna. Önnur var að hneykslast á gaurnum í sambandinu en hin sagði að hún skyldi alveg að hann vildi fara af landi brott því sem tónlistarmaður væri ekkert fyrir hann að gera á Íslandi. Síðan lauk hún romsunni með því að segja að henni fyndist það annars synd að hann skyldi vera tónlistarmaður því það væri svo mikil sóun á góðum gáfum.

Heyr heyr eða hittó, eigum við kannski öll að nota gáfur okkar í þágu viðskiptafræðinnar eins og hún virtist vera að gera? Eða var hún kannski að meina að það þyrfti ekki gáfur í tónlistarbransann? Það ætti kannski að senda Sinfóníuhljómsveit Íslands í I.Q. test svo við vitum nú hvar við höfum þessa kjána.