Mannfræðingar eru greinilega til alls líklegir samkvæmt fréttum Baggalúts og Ísland virðist vera mjög verðugur vettvangur rannsókna þeirra, alla vega á mannfræðingurinn Hörður P. Einarz létt með að finna týnda frumbyggjahópa á Íslandi. Ég þarf því ekki að kvíða framtíð minni því sem mannfræðingur ætti mér að nægja að skreppa á Vestfirðina og finna þar eitthvað kynlegt til að skrifa síðan um í hin ýmsu virtu mannfræðitímarit. Þetta hafði Baggalútur að segja um málið:
Landkönnuður finnur týnt sjávarþorp
Dr. Hörður P. Einarz, mannfræðingur og landkönnuður hefur birt grein í hinu virta riti "Popular Explorer" þar sem hann kynnir fund sinn á íslensku sjávarþorpi á Vestfjörðum, sem hefur verið "týnt" öldum saman. "Ég get staðfest að íbúar þessa þorps hafa ekki átt nokkurt samneyti við umheiminn í um 300 ár", sagði Hörður við blaðamann Baggalúts. Hörður var í útilegu í Þvörufirði Nyrðri ásamt móður sinni og stjúpa, þegar hann sá menn á áttæringi róa til fiskjar í firðinum. "Þeir voru allir búnir skinnfatnaði og mér brá allilla við þessa sjón", sagði Hörður og bætti við: "Ég leitaði svo þorpið uppi og fann það utarlega á Svaðnesi. Íbúar þess voru nokkuð hissa að sjá mig en þeir skildu ekki bofs í íslensku, presturinn kunni þó hrafl í latínu. Ég kallaði til sérfræðinga frá Árnastofnun og þeir hafa svona verið að ná kontakt við þá". Þjóðminjavörður hefur farið þess á leit við Menntamálaráðuneytið að þorpið verði varðveitt í heild sinni, ásamt íbúum þess.
Nú á dögunum lét Einar síðan aftur að sér kveða þegar hann fann tvær konur einhversstaðar út á landi:
Hinn kunni mannfræðingur og landkönnuður, Hörður P. Einarz fann á dögunum tvær eldri konur í Grundarvík, sem er löngu gleymt sjávarpláss í Hofmundarfirði á Vestfjörðum. Konurnar, sem eru tvíburasystur, voru sendar þangað af föður sínum frá Patreksfirði í síldarsöltun árið 1931 og hafa dvalið þar og saltað allar götur síðan. "Pabbi er nú sennilega bara á leiðinni sko", sagði Rannveig, eldri systirin við ljósmyndara Baggalúts. Að sögn Harðar munu konurnar hafa saltað allt hráefni bæjarins, sem fór í eyði skömmu eftir komu þeirra. Þegar það var upp urið söltuðu þær það sem hendi var næst: grjót, þang, timbur og jafnvel eigið hár.