Inná nestistofu rakst ég á tímaritið Tölvuheimur og þar sem ég hafði ekkert annað að gera fletti ég því í gegn og hafði gaman af. Það skrýtnasta sem ég rak augun í var greinin um framtíðarheimilið sem útbúið hefur verið hér á landi. Greinin er alveg lygileg og hljóðar svona:
"Teymi á vegum hins opinbera í Japan hefur í samvinnu við helstu tæknifyrirtæki landsins lokið byggingu netkerfis sem tengir saman öll raftæki og tól vísitöluheimilisins til að sýna hvernig heimili framtíðarinnar gætu virkað. Í heildina eru tækin sem tend eru saman 50 talsins og hafa þau öll sína eigin IP-tölu á netkerfinu.
Meðal þess sem þetta nettengda heimili býður upp á er að nota GSM-símann til að vökva garðinn og gefa gæludýrum að borða ef fólk er fjarverandi en vill hafa þessa hluti í lagi. Ekki þarf lykla til að opna útihurðina, heldur notar húsið fingrafaraskanna til að ákvarða hvort hleypa eigi fólki inn. Þvottasnúran fylgist með veðrinu og dregur sjálfkrafa hlíf yfir fötin sem verið er að þurrka ef rigning skellur á.
Það verður aldrei bjórlaust í húsinu, því þegar einungis þrjár flöskur eru eftir í ísskápnum sendir hann sjálfkrafa pöntun með tölvupósti til næstu matvöruverslunar og það sama gildir um hrísgrjón. Hvert herbergi hússins er svo með hljóðnema og hátalara, þannig að nú þarf móðirin ekki lengur að öskra sig hása til að kalla á börnin í matinn.
Einnig getur húsið lært á venjur einstakra fjölskyldumeðlima og hagað sér samkvæmt þeim. Ef ákveðinn fjölskyldumeðlimur fer jafnan á salernið um miðjar nætur, til dæmis, getur húsið aðlagað sig að því. Þegar viðkomandi skríður fram úr hitast salernissetan sjálfkrafa upp og ljósin á leiðinni að baðherberginu kvikna. Svo slokkna ljósin og hitarinn sjálfkrafa þegar rölt er inn í svefnherbergi aftur.
Skaparar hússins segja að allt sem boðið er þar upp á muni koma á almennan markað innan skamms. Þeir segja jafnframt að hugsað hafi verið um að hafa kostnaðinn við tæknina í lágmarki og því eigi að vera hægt að nettengja hús með þessum hætti fyrir 5 milljónir jena, sem eru um það bil 4 milljónir króna."
Jahá, mikið er gott að einhver sé þarna úti sem hugsar fyrir svona löguðu, það segir sig vitaskuld sjálft að ekki getum við haldið áfram að búa svona eins og moldvörpur, með þvottasnúrur sem hugsa ekki og með venjulegan ísskáp sem er ekki einu sinni nettengur! Hugsa sér hvernig við lifum, hversu oft lendum við ekki í því að verða uppiskroppa með bjór og hrísgrjón (samsetningin er algjört lostæti)? Nei, ekki meir, nú verður sko séð fyrir því að við eigum fullt búr af bjór og hrísgrjónum. Verst fyrir þá sem drekka ekki bjór eða fíla ekki hrísgrjón.