Þessa dagana er Bókhlaðan drekkfull af örvæntingarfullum nemendum sem friða samviskuna með því að koma hingað og þykjast læra. Ég er ekki ein af þeim, nota bene.
Í hádeginu tók ég mér minn vanalega matartíma uppí nestisstofunni. Að venju var mikið rætt í nestisstofunni enda margt um manninn. Stelpnahópur sat á næsta borði við mitt og snerust umræður þar í fyrstu um lélegt úrval Bónuss. Fljótlega fóru þær þó yfir í aðra sálma, nefnilega fiskibollur.
Allar höfðu þær sögu í pokahorninu um hvaða viðbjóð þær höfðu fundið í fiskibollum. Ein hafði lent í því að tengdamamma hennar útbjó fiskibollur og þegar komið var að því að borða þær stóð sporðurinn út úr einni þeirra. Þar að auki var fiskurinn óætur vegna offitu. Skeiðin með kaffijógúrti á leið uppí munn stöðvaðist. Klígja.
Næsta tók til máls, sú hafði hvorki meira né minna en fundið orm í sinni bollu. Hrollur. Búin að missa matarlystina, jafnvel þótt nestið hafi ekki samanstaðið af neinu fiskikyns. Varð að henda hálfkláraðri jógúrt og pína ofan í mig kexbita áður en ég forðaði mér úr þessu andstyggðar bæli.
Eitt er víst, ég ætla aldrei að borða fiskibollur. Reyndar er það ekki erfitt fyrir mig að efna, hef nefnilega ekki borðað fiskibollur síðan ég var 10 ára. Þar á undan voru fiskibollur í karrí mitt uppáhald en einn daginn gat ég ekki komið því niður fyrir klígju. Nú verður hins vegar ekki aftur snúið - fiskibollur, nei takk.