Eins og menn eflaust muna var farið með Kisu Stjörnuprúðu til læknis um daginn vegna meintrar vatnsdrykkju og tilheyrandi vatnslosunar í formi kattahlands. Greindist kisugrey með sykursýki og var því keypt sérstakt fæði fyrir ketti sem þjást af slíkri sýki. Fékk Kisa líka kisunammi fyrir hugrakka frammistöðu hjá lækninum góða, hún var sko allan daginn hjá vetta.
Nú nú, slíkt er í raun ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir baráttuanda Kisunnar okkar Stjörnuprúðu. Hún lætur ekki deigan síga, síður en svo, hún sigrar aðdráttarafl jarðar æ ofan í æ með því að hoppa tvist og bast, upp og út, til og ofar.
Hún er nefnilega í meðferð hjá okkur Bakkabræðrum Baldri og mér. Meðferðin lýsir sér í grófum dráttum svona: Útidyrnar, sem vísa að stórum og gróðursælum garði vorum, eru hafðar galopnar á góðviðrisdögum og er það liður í viðleitni okkar til að draga Kisu meira út.
Hún hefur brugðist hin sprækasta við og í blíðviðrinu sem leikið hefur við okkur Pókavogsbúa undanfarið hefur hún sólað sig í lautinni okkar góðu. Þetta hefur jafnvel gengið svo langt að hún er farin að læðupokast út á kvöldin þegar minnst varir og um daginn gerðist sá sjaldgæfi atburður (svo sjaldgæfur að slíkt hefur aldrei hent fyrr) að Kisa læstist úti, alein og óvarin.
Við vorum of upptekin við að rabba saman um heima og geima og gáfum krafsi hennar og klóri lítinn sem engan gaum. Allt í einu spratt ég þó á fætur til að aðgæta hvort einhver mórinn væri á ferð. Mórinn at arna var auðvitað litla ljúfan sem vildi komast inn. Og hér kemur að kjarnanum: Hún hafði óverdósað af fersku lofti, súrefni í nös, og var fim sem sirkusfíll. Hún iðaði af lífi, tók undir sig hvert stökkið á fætur öðru og lenti ávallt á báðum þófum, jafnþætis :) Slíkt og annað eins hefur hún aldrei gert sig seka um áður og var þetta gleðistund í litla kotinu.
Meðferðin virtist gefa góða raun og því var henni haldið áfram og Kisa tók þátt sem aldrei fyrr. Út að labba, borða gras, sniffa sólfífla, spóka sig, sólbað hér, hvæsa á ljótt fress þar, standa aftur upp og rápa, glápa. Hún gekk svo langt að hræða úr okkur líftóruna með því að fela sig í runnum og eitt sinn sá ég hana læðast upp stigann í átt að umferðargötunni. Ég útskýrði fyrir henni þýðum rómi að slíkt hæfði ekki hefðarketti sem henni og að forvitni væri löstur ef henni fylgdi lífshætta og magasár. Hún skildi mig og hélt áfram að vera blómabarn, halló blóm, halló fluva.
Ekki er öll sagan sögð, ó nei, því um daginn gerðust undur og stórmerki. Kisa, þessi kassavana frú sem auðvitað gerir þarfir sínar í þar til gert Kisuklósett inní þurrkherbergi, gerði sér lítið fyrir, tölti út í sandkassa og kastaði þar af sér vatni. Næst lét hún eftir "moka yfir" þráhyggju sinni og mokaði og mokaði yfir pissið þar til myndast hafði lítið fjall öðru megin og, óhjákvæmilega, dalur hinu megin.
Þessi tíðindi voru ósköp stór í augum Baldurs og ætlaði hann að hringja í fólk og vekja um miðjar nætur. Guði sé lof, þá tókst mér að koma í veg fyrir slíkt glapræði. Það tilkynnist því hér með að Kisa Stjörnuprúða hefur migið utanhúss og það í sandkassa takk fyrir.
Að lokum ber að minnast á leynivopnið í meðferð okkar á sykursýkinni: Ölger. Kisa litla er sólgin í þurrar gerflögur sem settar eru út á salat og í súpur og er þetta án efa eitt það besta sem hún lepur upp auk ólíva og skyrs (ég veit, hún er frábær). Nú nú, Baldur næringarráðgjafi komst að því að þetta áðurnefnda ölger jafnar út blóðsykurinn og því tókum við á það ráð að gefa kisu eina til tvær teskeiðar af geri með kvöldmatnum. Þessa dagana lifir Kisa því eins og blómi í eggi enda fær hún aðeins túnfisk, makríl og ölger. Kattamaturinn er sko búinn.