Dagurinn í dag fór allur í að eltast við banka. Þannig er mál með vexti að ég á reikninga um hvippinn og hvappinn sem ég hef ekki fylgst neitt með í mörg ár. Sumir þessara reikninga eru frá því ég fermdist, aðrir frá því ég skírðist og síðan eru enn aðrir sem ég kann engin skil á.
Mér var nóg boðið og ákvað að loka öllum þessum reikningum og setja upphæðina inná eina bók. Dagurinn fór því í að eltast við hina ýmsu ólíku banka, bíða í biðröðum og auðvitað, að fá afhenta peninga.
Að loknu þessu drifum við okkur heim á leið og tæmdum úr öllum sparigrísum og peningakrukkum sem við mundum eftir. Eldhúsborðið varð að einni fjársjóðskistu og það er greinilegt að við höfum verið eins og ormar á gulli. Þegar allt hafði verið talið saman, þar á meðal peningurinn af þessum litlu reikningum hér og þar, stóðum við uppi með rúmar 40.000 krónur. Ekki slæmt dagskaup það.