Veðrið úti er svo frábært að ég get ómögulega hugsað mér að sitja mínútunni lengur hér inná Bókhlöðu að gramsa í mannfræðitímaritum. Baldur er búinn að vinna klukkan 13 þannig að ég held ég hætti snemma í dag og hætti líka klukkan eitt.
Á svona degi á maður nefnilega að fara í sundlaugina og ekki bara hvaða sundlaug sem er, heldur verður maður að fara í Laugardalinn. Þar á maður að liggja í makindum í disknum eða liggja í sólbaði og skríða í pott 4 þegar hrollur kemur í beinin.
Síðan á maður að fara og fá sér ís, labba um Austurvöll og skoða mannlífið, klára ísinn og fara þá niður á tjörn að henda gamla brauðinu sem er búið að vera í bílnum frá því í ferðalaginu þar seinustu helgi í endurnar og gæsirnar og vonast innilega eftir að sjá litla gula unga á vappi.
Síðan á maður að fara í frísbí á góðu, grænu túni. Punktur og pasta, bókin er búin.