Baldur skrifaði þessa líka fínu færslu í gær eftir miklar takkaýtingar af minni hálfu. Fólk var farið að kvabba í mér að hafa ekki skrifað svo lengi en enginn áfellist Baldur! Svo ég setti upp fílupokasvip og sagðist ekki nenna að skrifa alltaf ein í þessa dagbók okkar, hefði hann kannski engan áhuga á þessu (þetta típíska hjónakvabb).
Núnú, hann tók sig sem sagt til, bretti upp ermarnar á stuttermabolnum (yeah right) og hóf skrifin. Hann taldi sér trú um að hann væri undir mikilli pressu við skrifin og skrifaði því að af miklu kappi og postaði strax án þess að prófarkalesa textann. Það lenti því á mér þennan blessaða rigningarmorgun að lesa yfir færsluna og kíkja eftir stafsetningarvillum.
Mikil ósköp, þær voru nokkrar. Og kem ég þá að kjarna máls míns. Sem ég les yfir textann skera örfá orð sig úr heildinni sökum ljótleika síns, eins og t.d. skrýmsli og Krýsuvík. Að mínu mati voru þessi orð bæði rituð með venjulegu í en ekki ý. Til að hafa vaðið fyrir neðan mig skellti ég mér því á síðuna leit.is og leitaði að þessum tveimur orðum til að sjá hvort væri rétt.
En mikil ósköp, í báðum tilvikum fann ég alveg heilan helling af síðum sem skrifðu orðin með í og ý. Þetta flækti málin óneitanlega fyrir mér og ég fór að velta fyrir mér hvort ég hefði verið svo óheppin að ramba akkúrat á þau orð íslenskunnar sem má skrifa bæði í og ý, eins og í spítu (spýtu). Frómt frá sagt þá þoli ég ekki slík orð, er ekki bara hægt að hafa einfalda reglu, taka ákvörðum og segja síðan: Já, héðan í frá verður orðið spíta aðeins skrifað með bókstafnum í og bókstafurinn ý mun ekki koma til greina og mun slíkt teljast til stafsetningarvillu.
En á hvaða grundvelli tók ég þá ákvörðun að leiðrétta texta Baldurs og setja frekar í í stað ý í orðunum skrýmsli og Krýsuvík? Jah, ég er ekki alveg viss en ég held að ákvörðunin hafi aðallega grundvallast á trúverðugleika og áreiðanleika síðnanna sem birtu fyrrgrein orð (þ.e. skrímsli og Krísuvík).
Þær síður sem skrifðu Krísuvík með í voru að mínu mati áreiðanlegri en þær sem skrifuðu orðið með ý. Þær sem notuðust við í voru t.d. hostel.is, austurleid.is, flensborg.is, gtyrfingsson.is, hraunbuar.is, landbunadarraduneyti.is, natturuvernd.is, grindavik.is og síðan einhver ferðaskrifstofan. Þar fyrir utan voru 180 síður sem fundust undir leitarorðinu Krísuvík en aðeins 3 undir hinu: Krýsuvík. Sem sagt, Krísuvík er það.
Að orðinu skrímsli. Orðið skrímsli er skemmtilegt orð. Ég tengi það alltaf við bækurnar um Einar Áskel og skrímslið sem hann taldi að dveldist undir rúmi hans. Í mörg ár var ég hrædd við að láta fæturnar dangla fram af rúmbrúninni af hræðslu við þetta Einar Áskels skrímsli. Ég er nokkuð viss um að það sé skrifað með í þar sem 219 síður gerðu slíkt hið sama en aðeins 25 notuðu ý í orðinu. Hananú!