fimmtudagur, 20. júní 2002

Ferðasaga

Jæja, eins og flestir vita fórum við í ferðalag um síðustu helgi. Við ákváðum að skoða Reykjanesið í smáatriðum og gefa okkur tíma í það. Við byrjuðum á því að keyra inn í Voga við Vatnsleysuströnd og tjölduðum þar.

Um morguninn prófuðum við svo að fara í lókalsundlaugina sem var bara firnagóð auk þess sem potturinn er heimili vatnaskrímslis nútímans... nefnilega ofurnuddtækisins. Eftir sundferðina pikknikkuðum við svo við kirkjuna og þurrkuðum tjaldið þar sem það hafði rignt um nóttina.

Næst á dagskrá var að kíkja á Garð, stoppuðum ekki í Keflavík í þetta sinn en það kemur seinna. Við keyrðum nú bara þar um en skoðuðum Garðskagavita og þar hitti ég líka svakalega spaka langvíu sem var rosalega mikið hrifin af fyrirsætustörfum. Nú áfram héldum við sem leið lá í gegnum Sandgerði, Hafnir og fram hjá Saltverksmiðjunni.

Þá var komið að hápunkti Reykjaness að okkar mati, nefnilega Reykjanesvita og Valahnjúki. Valahnjúkur er gróinn hóll þar sem einhver hefur einhverntíma búið og ef maður gengur upp brekkuna horfir maður beint niður þverhnípta klettana á brimandi sjóinn fyrir neðan og auðvitað er allt krökkt í fuglum. Þarna eyddum við drjúgum tíma í að skoða fugla og taka myndir.

Nú var okkur farið að langa nær sjónum og fórum því niður í fjöruna sem er nú ekki alveg eins og maður ímyndar sér fjörur (sandur, skeljar...) heldur var hún þakin risastórum steinum sem sumir voru eins og egg í laginu, aðrir eins og golfkúlur og enn aðrir holir eins og frumstæð leirker.

Eftir þetta allt saman lá leiðin til Grindavíkur sem var nú eins konar drive through því við vildum ná að Selatöngum áður en klukkan væri orðin háttatími. Við leggjum af stað út á hinn alræmda og grófgerða veg sem liggur að Krísuvík og sjáum eftir smá akstur skilti á hægri hönd sem vísar á Selatanga. Við beygjum inn og BONK... ég drep á bílnum, fer út og segi: ÓNEI!

Það sem hafði gerst var einfalt. Olíusían hafði orðið fyrir árás frá einhverjum steini sem lá í leyni (bundið mál) og var nú skökk á bílnum og öll olían farin af vélinni. Við vorum utan þjónustusvæðis símalega séð en náðum þó í 112 og fengum samband við Grindarvíkurpólitíið sem kom fljótlega og kallaði eftir aðstoð.

Eitthvað hafa skilaboðin skolast til á leiðinni til dráttarbílsins því hann kom ekki fyrr en þremur tímum eftir óhappið. Það var þó lán í óláni að þessir strákar voru hinir vænstu drengir og áttu til síu og olíu og öllu var kippt í liðinn einn, tveir og þrír. Þessi atburður varð líka til þess að við fórum ekki bara framhjá Keflavík heldur vorum við dregin þangað af örlögunum.

Þegar þessi svaðilför var á enda skutumst við í Kópavoginn og sváfum heima um nóttina. Morguninn eftir fórum við svo á Pétursstaði á Stokkseyri og tékkuðum á svæðinu. Áfram héldum við svo um sveitirnar í kring þar til við vorum komin í Skálholt, þá skoðuðum við kirkjuna og fornleifauppgröftinn sem er í gangi.

Þaðan fórum við svo á Þingvelli og tjölduðum við Gjábakka. Það var ágætt nema að við vorum ekki ein í svefnpokanum, það var nefnilega einhver kónguló sem vildi hlýja sér hjá okkur og beit mig í leiðinni svona eins og tíu sinnum. Á leiðinni heim skelltum við okkur svo í sund í Ljósafosslaug og keyrðum svo Grafninginn.

Og þannig var nú það.