Það var stelpukvöld hjá mér í gær og mannfræðigengið mætti á svæðið: Sigga, Dögg, Lísa og Birgitta. Elva er út í Svíþjóð og mætti vitaskuld ekki. Þetta er víst í seinasta skiptið sem gengið Verð að skilja hittist því Birgitta er að flytja til Þýskalands og Sigga verður í Svíþjóð í vetur. Þetta verður eitthvað fátæklegt næsta vetur. Hvað um það, hver nennir að pæla í vetri þegar veðrið er eins dásamlegt og það er í dag?
Af skrifstofunni sem ég vinn í hér í Odda hef ég frábært útsýni. Það eina sem skyggir á eru kaktusarnir tveir í sætu leirpottunum sínum. Iðagræn týn, heiður himinn, laufguð trén, gosbrunnurinn í tjörninni og í síðast en ekki síst Esjan góða. Skrýtið hvað hún virðist nálægt héðan séð, það er eins og Þingholtið sé við rætur fjallsins.
Nú er ég alveg að verða búin með þennan vinnudag og get þá haldið galvösk út í sólskinið. Ég held að skynsamlegasta ákvörðunin sem maður getur tekið í slíkri blíðu sé að fara í sund. Baldur er reyndar að ferðast um landið með folöldunum sínum áður en þau strjúka til Frakklands. Ég verð því bara ein í þetta sinn, ein í þeim skilningi að ég verð Baldurslaus. Það þýðir einfaldlega að enginn verður til staðar til að kasta bolta í hausinn á mér, skvetta vatni framan í mig eða synda mig niður.