Í gærmorgun þegar Ásdís var nýlögð af stað í vinnuna þá hringdi síminn og í honum voru mamma og pabbi að spyrja mig hvort ég væri til í að fara í smá lautarferð. Ég var meira en lítið til í það og sóttu mig med det samme á Digranesveginn.
Ég bjóst við að næsta skref væri Heiðmörk eða eitthvað svoleiðis en það var ekki þannig. Við fórum sem leið lá beint út úr bænum í átt til Hveragerðis en í staðinn fyrir að fara þangað fórum við Þrengslin. Þar stoppuðum við aðeins til að litast um, taka myndir og rétta úr okkur.
Þegar við vorum búin að keyra í smástund frá þeim stað þá beygðum við útaf á torfæran veg sem er ekki ætlaður öðrum en jeppamönnum. Þetta var sandvegur og við fórum upp einhverja brekku í fjórhjóladrifinu og viti menn handan hennar var gullfallegt útsýni beint yfir magnaða sandfjöru og að sjálfsöðgu sjóinn, maður sá meira að segja mjög vel til Vestmannaeyja.
Þegar við vorum búin að leika í nokkrum dömubindaauglýsingum í fjörunni með tilheyrandi látum fórum við í kaffi til Jóhanns Óla fuglafréttaritara RÚV. Hann býr á Stokkseyri í mjög sætu nýuppgerðu húsi. Útsýnið þar er stórkostlegt og í gær sást svo vel í allar áttir að það var eins og hver einasta þúfa og hver einasti jökull stæðu á tánum svo maður sæi þau aðeins betur.
Eftir að hafa kvatt Jóhann Óla þá heimsóttum við náttúruperluna Urriðafoss þar sem ég tók heilan helling af myndum með tilheyrandi príli og látum. Á þessum tímapunkti vorum við öll orðin svolítið þvæld og rykug þannig að eðlilegast var að skella sér í sund og var það gert í Skeiðalaug.
Eftir sundferðina pikknikkuðum við bigtime með forrétti, aðalrétti og að sjálfsögðu tvöföldum eftirrétti. Hrein og södd héldum við svo aftur af stað og var stefnan tekin á Skálholt þar sem vinur okkar séra Egill Hallgrímsson er prestur. Hann var að vísu ekki heima þegar okkur bar að garði en konan hans hún Ólafía tók vel á móti okkur og bar fram svaladrykki og nammi meðan við biðum.
Það var mjög gaman að heimsækja þau og staðurinn er frábær. Eftir að hafa skoðað mótorhjólið hans Egils og spjallað helling var haldið í bæinn þar sem folöldin þurftu að kasta kveðju á fleiri.
Þetta er fréttaritari dagbókarinnar í Árnessýlu.