Ég hef verið að pæla í þessu með mýsnar og leðurblökurnar. Sem félagsvísindamaður get ég ómöguleg á mér heillri setið með niðurstöðu heimspekinganna í þessu flókna máli. Þeir skilgreina fyrir það fyrsta ekki hvað þeir eiga við með hugtakinu engill. Ég sé fyrir mér bjarta, geislandi veru með geislabaug og stórt, hvítt vænghaf. Þeir eru þar að auki engilfríðir. Þetta eru svokallaðir ljósenglar.
Leðurblökur uppfylla engin af þessum skilyrðum þar sem þær munu ævinlega og ávallt vera ófríðar. Því spyr ég: Af hverju í ósköpunum ættu mýs að halda að leðurblökur séu englar? Væri ekki nær lagi að þær héldu að þær væru djöflar? Eða vampírur? Bliksvartar, með vígtennur og svínslegt andlit. Svo leggjast sumar þeirra á búfénað og sjúga blóð. Það eru sko engir englar sem gera slíkt.
En síðan má leiða líkum að því að leðurblökur séu eins og Lúsífer sem gerði uppreisn gegn Guði, var varpað í myrkrið fyrir vikið og hefur nú sveit myrkra engla hjá sér. Gætu mýs ekki hæglega álitið sem svo að þessi flugkvikindin væru myrkir englar? Og ef svo er, væri þá hægt að segja að jú, mýs telja að leðurblökur séu englar þar sem þær eru myrkir englar, eða væri réttara að álykta sem svo að slíkt væri fásinna því myrkir englar ættu ekki rétt á að fara í sama bás og ljósenglar?
Nei, ég held það hljóti að vera að mýs vilji ekkert með leðurblökur hafa og allra síst vilja þær vera ásakaðar um að verða að slíkum óskapnaði eftir dauðann. Eftir líkamsdauðann vilja þær líklegast komast á eitthvert mjúkt ský eða enn betra, að komast á tunglið þar sem það er nú einu sinni úr osti.
Annars sýnist mér glitta í bláan himinn úti og jú... bíddu... og sjá Guð sagði ljós og það varð ljós. Sólin er komin úr hreiðri sínu. Ég verð að fara út í glugga núna og horfa, það er orðið svo langt síðan síðast sást til sólar. Ætli ég borði ekki bara nestið mitt undir berum himni fyrst hann hangir þurr þessa stundina.