föstudagur, 26. júlí 2002

¡Hola!

Um daginn horfðum við á spænsku myndina La niña de tus ojos með Penélope Cruz. Sá atburður var hluti af nýju átaki okkar Baldurs í að horfa meira á spænskar myndir. Ekki veit ég hvernig við fengum þá flugu í höfuðið að slíkt átak væri okkur nauðsynlegt en þar sem flugan suðar þar óð (í hausnum sko) þá er best að verða að ósk hennar.

Fyrsta myndin í þessu átaki okkar var Fresa y chocolat en sú mynd sannfærði mig um að myndir S-Ameríku og Spánar væru vel þess virði að kíkja á. Í raun má segja að sú mynd hafi komið af stað þessu átaki ef átak skyldi kalla.

Sú næsta í röðinni var ein af myndum spænska leikstjórans Pedro Almodovar, ¡Atame! eða Bittu mig, elskaðu mig á hinu ástkæra. Þar fara Victoria Abril og Antonio Banderas með aðalhlutverk og útkoman en vægast sagt frábær.

Og núna um daginn var það eins og áður sagði myndin La niña de tus ojos. Góð mynd og sérkennileg blanda. Sprenghlægileg á köflum. Þetta leiðir af sér að á listanum eru aðeins þrjár myndir eftir: Kryddlegin hjörtu, Kika og Carne Trémula.

Í kvöld er pizzakvöld hjá pabba sem þýðir að við komumst í tæri við myndabandstæki og sjónvarp. Því er árennilegt að reyna að glápa á þá síðastnefndu í kvöld. Spólan er reyndar komin ofan í einn af kössunum og því verður að bíða og sjá hvort við nennum að fara að gramsa í öllu draslinu okkar og færa allt úr stað.

Kassinn sem spólan er í er nefnilega einn af fyrstu kössunum sem við pökkuðum og það þýðir aðeins eitt: hann er neðst undir kassaturninum sem reistur hefur verið í þurrherberginu góða.