þriðjudagur, 30. júlí 2002

Þvottavél fundin

Á sunnudaginn var brettum við upp ermar og hófum flutningana yfir í Hrauntunguna. Þó ég segi sjálf frá þá komum við ansi miklu í verk. Við fluttum hillusamstæðuna mína og 23 kassa. Nolli er ekki það rúmur að hann taki slíkan farangur þannig að Peugeotinn hans pabba og kerran hjá Kalla afa og Ólöfu ömmu voru fengin að láni.

Mitt í allri þessari ös fengum við símhringingu frá manni sem hafði augljóslega séð auglýsinguna okkar á netinu og bauð okkur fimm ára þvottavél til sölu. Við vorum óð og uppvæg og vildum endilega koma og kíkja á græjuna. Þegar þangað var komið sáum við að þetta var Philco þvottvél, 1000 snúninga og í þrælfínu ástandi. Við keyptum hana á staðnum. Reyndar keypti pabbi hana fyrir okkur og sagði að þetta væri innflutningsgjöfin! Takk fyrir það elsku pabbi.

Gærdagurinn var engu minni í sniðum hvað flutninga varðar. Við tókum allar þær mublur sem tök var á auk þess að tæma fataskápinn og matarbúrið. Síðan var farið á nýja staðinn og skáparnir þar þvegnir áður en við hófumst handa við að raða inní þá.

Og síðan í dag stöndum við Unnur upp fyrir haus hérna á skrifstofunni að breyta og taka til. Það var allt úr skorðum vegna einhverja framkvæmda og því nýttum við okkur tækifærið og færðum allt í skorður en ekki þó í fyrri skorður. Nú lítur skrifstofan ljómandi vel út en við aftur á móti hnerrum og hnerrum eins og við eigum lífið að leysa enda mikið ryk sem leynist í bókunum.