Eftir að Fríða Sól flutti aðsetur sitt frá holinu við eldhúsið, sem hún deildi með ísskápnum okkar, þar sem hún fékk að dvelja ofan á kommóðu, og færði sig inn í forstofu til að fá meira næði hefur litla kommóðan staðið tóm og þjónar engu hlutverki lengur. Þar sem við eigum ekkert í henni ætlum við að skila henni til eigenda sinna nú þegar hún er okkur til óþurftar. Hins vegar veitir okkur ekki af meiri geymslurými undir alls kyns bollastell og hnífaparasett sem okkur hefur áskotnast í gegnum tíðina og því fórum við á stúfana í dag með það í huga að finna einhvers konar mublu sem passaði akkúrat þarna inn í og gæti hýst þessa blessuðu hluti. Við fórum því rakleitt niður í Góða hirðinn því þar er oft hægt að finna eitthvað heillegt á ágætisverði.
Ekki varð okkur þó kápan út því klæðinu að finna okkur lítið skatthol þar sem við sátum sem fastast í bókahorninu með nefið ofan í bókarykinu. Það er nefnilega alltaf hægt að finna eitthvað viturlegt og gagnlegt í þessu bókahorni þeirra og sumar bækur hafa augsjáanlega aldrei verið skoðaðar, svo vel farnar eru þær. Meðal þess sem við fundum voru sagnfræðibækur sem lýsa því hvað var efst á baugi tiltekið ár og keyptum við því auðvitað slíka bók fyrir árið 1979. Ég fann þar að auki tvær mannfræðibækur og er önnur þeirra skrifuða af Gísla Pálssyni. Auðvitað var mikill fengur í þessum bókum en ánægðust var ég þó með einn grip, það er ca. 40 cm há stytta af konu skorin út í tré. Hún er einstaklega falleg og vel gerð og líklegast á hún rætur að rekja til Indlands. Mér finnst óheyrilegt annað en að nefna styttuna en það hefur verið hægara sagt en gert hingað til. Baldur vill kalla hana Pamelu en ég tók þvert fyrir það. Það væri þá skömminni skárra að kalla hana Britney.