Í dag er allra heilagra messa þegar látinna er minnst og í tilefni þess var haldin tónleikamessa í Hjallakirkju þar sem sungin voru sérvalin stykki eftir Mozart. Eins og góðir menn muna er Baldur í kirkjukór Hjallakirkju og hefur í allt haust verið að æfa sig fyrir þessa tónleika.
Eins og ég hef áður sagt þá er ekkert vit í því að þurfa að kveljast heilu og hálfu dagana við drunur úr barka maka manns ef maður fer síðan ekki og hlustar á kórinn í heild sinni og því mætti ég til messu klukkan 11 í morgun. Pétur afi og Stella amma voru mætt til að dást að drengnum rétt eins og ég. Kórinn stóð sig alveg ljómandi vel og ég fékk meira að segja gæsahúð þegar þegar sungið var Kyrie eleison.
Að messu lokinni fórum við fjórmenningar niður í bæ í leit að opnum veitingarstað þar sem við gætum sest niður og snætt hádegisverð. Því miður var Á næstu grösum og Caruso lokað þannig að við drifum okkur í hlaðborð upp á Hótel Sögu. Það var svona ljómandi fínt og fékk ég mér meira að segja tvíréttaðan forrétt. Við vorum öll svo södd og sæl eftir veigarnar að við drifum okkur heim í síestu.
Þegar heim var komið sá ég þó að María vinkona hafði reynt að ná í mig og þegar ég náði tali af henni var hún að bjóða okkur í innflutningsveislu upp í Mosó. Ég fór að hugsa hvað það væri skrýtið að halda innflutningsveislu strax þegar allt væri enn í steypuryki því varla voru þau búin að gera upp bílskúrinn og þvottahúsið strax eða hvað?
Það sannaðist þó þegar við mættum á svæðið að ekki vantar kraftinn í þau því allt var komið á sinn stað. Eldhúsið er risa flæmi með þessari líka fínu eldhúsinnréttingu sem þau fengu á slikk. Á miðju gólfinu stóð síðan þetta líka stóra eldhúsborð og ég sá bara fyrir mér átt stykki litlar Maríur og Kára sitjandi þar!
Við Baldur áttum varla til orð yfir drifkraftinum í þeim og sérstaklega átti ég bágt með að trúa hve fljótt þetta hafði gengið fyrir sig. Eins og áður var Gabríel feiminn við mig en hann lék þó á alls oddi og heillaði okkur algjörlega. Sérstaklega sjarmerandi var það þegar hann brosi sínu blíðasta framan í frænda sinn og klikkti síðan út með því að blikka hann! Já, hann ætlar að verða svaka sjarmör hann Gabríel, á því leikur enginn vafi.