Frétt af mbl.is: "Sex ára gömul áströlsk stúlka hefur fengið sérstök heiðursverðlaun dýraverndarsamtaka, en henni tókst að bjarga lífi kettlingsins síns þegar kyrkislanga réðist á hann. Marlie Coleman, sem býr í Cairns í Ástralíu, bjóst til varnar þegar kyrkislangan beit kettlinginn Sóta fyrr á þessu ári. Slangan sleppti Sóta en réðist þess í stað á stúlkuna og beit hana í vörina og hékk þar þangað til móðir stúlkunnar kom og tókst að losa hana. „Snákurinn reyndi að éta Sóta," var það eina sem Marlie gat sagt þar sem hún stóð grátandi blóðug í framan með slönguna hangandi á vörinni. „Mark Townend, formaður konunglegu dýraverndarsamtakanna í borginni, sagði í yfirlýsingu, að samtökin vilji ekki að börn leggi sig í hættu, en þessi litla stúlka, sem var aðeins 5 ára gömul þegar þetta gerðist, hefði sýnt afburða hugrekki og sýnt hinn sanna dýraverndaranda. Talið er að slangan, sem slapp, hafi verið 2,5-3 metra löng."
Mér finnst þessi frétt svolítið kaldhæðin að því leyti að dýraverndarsamtök veittu verðlaun fyrir að bjarga kisulóru úr klóm slöngunnar. Einhvern veginn virðist svo vera að litið sé á kisur sem dýr sem ber að verja en ekki slöngur því hvað vitum við nema að slangan hafi verið að farast úr hungri. Það er jú bara náttúrulegt að slík dýr veiði og éti önnur dýr.
Mér virðast þessi samtök frekar vera gæludýraverndarsamtök. Ég hefði þó gert það sama í sporum stelpunnar ef ég hefði haft hugrekki til þess. Það getur nefnilega ekkert dýr keppt við kisur hvað varðar fríðleik og yndisþokka og því hefði slangan fengið að finna á því :)