Nú styttist í að ég brautskráist frá HÍ þar sem ég lauk BA náminu nú í vor. Ég hef fengið að heyra alls kyns hryllingssögur af þessari athöfn, m.a. að hún geti tekið allt að fimm tímum, að þetta sé óbærilega leiðinlegt og að það sé svo heitt að ekki sé líft þarna inni nema á nærbuxunum. Ég ætla ekki að útskrifast á nærbuxunum svo ég býst fastlega við að kafna. Þá hefur mér verið ráðlagt að mæta með bók, ef ekki bara bækur.
En svo ég tali í alvöru þá leiddi ég þetta að mestu hjá mér og lagði lítinn trúnað í slíkar ýkur. Nú hins vegar er ég orðin verulega kvíðin því ég las þetta á mbl.is:
Stærsta brautskráning HÍ
Alls munu 779 kandídatar útskrifast frá Háskóla Íslands næstkomandi laugardag. Þetta er stærsti hópur sem brautskráðst hefur frá skólanum. Athöfnin fer fram í Laugardalshöll. Flestir útskrifast úr félagsvísindadeild, eða 210, en 113 útskrifast úr verkfræðideild. Hvorug deildanna hefur áður brautskráð svo marga að vori. Úr heimspekideild útskrifast 113, 141 úr heilbrigðisgreinum, 91 úr viðskipta- og hagfræðideild og 87 úr raungreinadeild. Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem útskrifast. Þær eru 497, eða tæplega 64%, en karlar einungis 282, eða rúmlega 36%. Aldrei fyrr hefur munurinn verið jafnmikill. Karlar eru þó mun fleiri í útskriftarhópi verkfræðideildar, eða 87. Konurnar eru 26.
Munurinn á kynjunum er langmestur í hjúkrunarfræðideild. Þar útskrifast 77 konur en enginn karl. Úr heimspekideild verða 72 konur brautskráðar en 28 karlar og frá félagsvísindadeild útskrifast 150 konur og 60 karlar.
Vegna mikillar fjölgunar brautskráninga í júní-útskrift Háskóla Íslands hefur umræða skapast um það hvort leita þurfi að stærra húsnæði en Laugardalshöll til þess að hýsa athöfnina. Búast má við að húsfyllir verði á laugardag. Á síðustu árum hefur nokkuð verið kvartað yfir þrengslum og hita og eru þess dæmi að fólk hafi fallið í yfirlið.
Ó, mig auma :(