mánudagur, 23. júní 2003

Mannfræðingurinn sem eldar ítalska grænmetissúpu

Ég hef látið hjá líða að skrifa um atburði liðinna daga sem er synd því hver dagur hefur verið öðrum skemmtilegri.

Á föstudaginn förum við Baldur til að mynda til pabba eins og við höfum gert undanfarna svona hundrað föstudaga til að gæða okkur á pizzu. Nema í þessu tilviki var slíkt ekki á döfinni enda ég búin að ákveða að elda ofan í mannskapinn ítalska grænmetissúpu sem er algjört lostæti (uppskriftina má finna í matreiðslubókinni okkar hér á netinu).

Andri var eins og venjulega búinn að loka sig af inn í herbergi á fullu að lesa undir þessi inntökupróf í læknisfræðinni. Við þá tilhugsun sætti ég mig fullkomlega við minn hlut og undi mér vel í eldhúsinu við að saxa niður grænmetið sem þarf í súpuna. Á meðan skutust pabbi og Baldur niðrí vinnu pabba, Baldur þurfti nebbla að staðfesta bókun á gistingu í London (jei!).

Þrátt fyrir að brósi hafi látið sig vanta tókst mér að plata Sigrúnu kærustu hans til að smakka og allir virtust ægilega ánægðir með súpuna. Pabbi sagðist einfaldlega ekki geta hætt að borða og það rifjaði upp fyrir mér eitthvað sem Óli afi sagði víst oft í denn: Ég vildi að ég væri búinn að borða, farinn að sofa, vaknaður og aftur byrjaður að borða!

Jæja, nóg um þessa súpu því ég iða í skinninu eftir að lýsa laugardeginum, útskriftardeginum góða. Nú, nú við Balduro mio fórum í sund til að slaka smá á fyrir athöfnina og telja í okkur kjark til að mæta. Þegar til kastanna kom var þetta þó hvergi nándar nærri eins slæmt og mér hafði verið tjáð né það sem mbl.is gaf í skyn.

Athöfnin var tæplega tveir og hálfur tími, sem þýðir að hún var á undan áætlun og mér leiddist satt að segja ekki neitt fyrr en undir lokin þegar rektor virtist aldrei ætla að ljúka máli sínu. Ég verð að viðurkenna að ég varð pínu taugastrekkt að standa uppi á sviði frammi fyrir mörg hundruð manns til að fá skírteinið afhent en það tók svo fljótt af að fiðrildið í maganum komst aldrei á flug.

Ég var nú ekki ein um að vera útskrifst þennan dag (779 stykki munið!), Heiddi vinur Baldurs kláraði BS í eðlisfræði og Tinna hans Óla Þórs frænda kláraði jarðeðlisfræði. Ég hins vegar kláraði BA í mannfræði og er því orðin að mannfræðingi. Og gerið það fyrir mig að rugla því ekki saman við sálfræði og segja sposk á svip: Nú, mannfræðingur, ætlarðu þá að sálgreina mig?

Að athöfninni lokinni fórum við Baldur með mömmu og Sigga út að borða á veitingastaðinn Á næstu grösum. Um kvöldið kíktum við tvö síðan í bíó á myndina En la puta vida sem mér þótti ansi góð, þó helst fyrir það að fjalla um hliðar hnattvæðingarinnar sem ég hef nokkurn áhuga á.

Á leiðinni heim úr bíóinu sáum við svo dýrðlegt sólarlag að við gátum ekki fengið okkur til að fara heim strax. Við mundum þá að það voru sumarsólstöður svo við brunuðum út á Gróttu til að upplifa herlegheitin. Við vorum greinilega ekki ein um þessa hugdettu því þarna voru heilu fjölskyldurnar í hjólatúr með hunda sína auk fjölda kærustupara. Einstaklega viðeigandi endir á góðum degi.

P.s. Frá atburðum sunnudagsins greini ég frá síðar.