Úr varð á sunnudaginn að við fórum í hjólatúr enda veðrið dásamlegt og ekki hægt að eyða drjúgum hluta dagsins inn í bíl að keyra Hvalfjörðinni, sama hversu fallegur hann getur verið í sól og sumari. Við pökkuðum léttu nesti, fórum í okkar sumarlegustu föt sem voru annars vegar pils og hins vegar stuttbuxur. Þið megið giska hvort okkar var í hverju :)
Við þurftum reyndar að byrja á því að fara með hjólið mitt á bensínstöðina og pumpa í dekkin og smyrja keðjuna og bremsurnar. Ég varð að sætta mig við að hjólið mitt sem ég keypti í Flórída eftir fermingu er ekki lengur eins splunkunýtt og ég hef fram að þessu haldið fram. Það er t.d. óhemjuþungt svo það er engin furða að ég hef verið rög við að stíga á það.
Ég fór nokkra prufuhringi á hjólinu áður en ferðin hófst þar sem ég hef ekki brúkað hjólið núna í tæp tvö ár. Það gekk fremur brösulega þar sem bremsan festist alltaf eða þá að hjólið gíraði sig upp og niður af sjálfu sér. Baldur, sá herramaður sem hann er, tók ekki annað í mál en að ég fengi hans hjól og hann færi á mitt. Og ég, eins tækifærissinnuð og ég er, sagði bara já takk og hjólaði ánægð á brott.
Ferðinni var fyrst heitið til Nauthólsvíkur þar sem við lágum og flatmöguðum á ströndinni í stutta stund. Okkur leiddist hins vegar ógurlega svo við tókum bara hjólin og fórum upp í Öskjuhlíð þar sem við fundum fullt af sætum lundum og skoðuðum Strók.
Ferðin lá síðan að Fossvogskirkjugarði þar sem við fórum að leiðum ættingja okkar. Eftir það héldum við að Fossvogsdal og hjóluðum hann endilangan og enduðum við Elliðaárnar þar sem við pikknikkuðum við Ullarfoss og Þvottaklöpp ef ég man þessi staðarheiti rétt.
Þegar þar var komið sögu var hjólatúrinn búinn að standa í tæpa fimm tíma svo við brunuðum heim af krafti sem ég vissi ekki að við ættum eftir. Allra skemmtilegast var að bruna niður Digranesheiði. Ferðinni lauk síðan í garðinum okkar í Hrauntungunni. Sem sagt frábær dagur.