Helgin fram að þessu hefur verið alveg frábær og mér hefur svo sannarlega tekist að vinda ofan af mér margra mánaða þreytu og stressi. Veðrið í gær, skúr og skýjað, fór afskaplega vel í mig, svo vel að ég kom heilmiklu í verk.
Ég lagði til að mynda í að fara niður í Kringlu og þar fann ég mér föt til útskriftarinnar (sem ég er annars farin að kvíða nokkuð þar sem ég hef heyrt hryllingssögur á borð við að athöfnin geti tekið allt að fimm tímum!).
Þegar við komum heim í Kópavoginn okkar röltum við niður á hlaupabraut og hlupum/skokkuðum/gengum dágóðan spotta. Eftir það var haldið í sund og farið eina 500 m. Ég var óskaplega stolt af mér því ég fór 75 m. flugsund þrátt fyrir að vera uppgefin. Það þarf nefnilega soddan sprengikraft til að synda flugsund eða fiðrildasund eins og enskumælandi menn kalla það. Verðlaunin fyrir þessa hreyfingu og útivist voru heldur ekki af verri endanum, engiferöl og karamellusnakk :)
Þegar við vöknuðum í morgun var þessi líka veðurblíðan. Við vorum með tvenn plön í gangi fyrir daginn í dag, 1. ef rigning: bíltúr upp á Akranes og sund þar eða 2. ef sól: hjólatúr niður á Seltjarnarnes og síðan í Nauthólsvík og pikknikk þar.
Við virðumst hins vegar hafa fengið smá mix af hvoru tveggja svo ég veit ekki alveg hvernig við snúum okkur í þessu. Kannski maður blandi þessu aðeins, keyri niður í Nauthólsvík og taki sundsprett þar (burrr, líst ekki vel á það), keyri upp á Akranes og pikknikki á ströndinni þar eða hjóli upp á Akranes og fari í sund þar. Mér líst verst á síðasta liðinn.