Í gær var vont veður. Sennilega þarf ég ekki að skýra það nánar en mér fannst veðrið í gær vera mjög vont. Þegar ég var á leið í Lögberg frá Þjóðarbókhlöðunni skall á mér og kunningja mínum harkaleg vindhviða. Báðir misstum við jafnvægið eins og við hefðum verið slegnir.
Þessi illkvittna vindhviða reif af mér gleraugun og flugu þau ásamt laufblöðum og öðru drasli út í buskann. Vinur minn, sem hér eftir verður kallaður Ásgeir, lagði hjólið sitt á hliðina og hljóp á eftir gleraugunum. Þetta var vonlaus barátta, eins og kálormur í keppni við blettatígur. Vindurinn var meira að segja svo sterkur að hjólið sem enn lá á hliðinni fauk á fullri ferð eftir götunni og hljóp ég það uppi.
Nú geng ég um göturnar bitur og blindur eins og kvekkt moldvarpa með pírð augu og skeifu í andliti.