Í gær fórum við hjónaleysin í dágóðan bíltúr með PG (afa Baldurs alt svo) austur fyrir fjall. Við byrjuðum á því að kíkja í garðyrkjustöðina Borg í Verahvergi þar sem Pétur afi keypti stjúpur, silfurkamb og aðrar plöntur sem ég kann ekki að nefna. Þó veit ég að einhverjar þeirra bera bleik blóm því mér var treyst fyrir litavalinu.
Þá treysti PG starfsmanninum fyrir vali á einni plöntu en leist þó ekki á blikuna þegar hann sá að fyrir valinu varð þyrnótt planta - óvenjuleg útlits - sem er víst æt. Mér leist ekki á blikuna þegar ég sá að Baldur var farinn að jappla á henni og lagði á ráðin um að halda henni sem fjærst honum í bílferðinni aftur heim. Einnig keyptum við blómkál, brokkolí og ýmis krydd og krásjurtir í matjurtagarð PG.
Að lokinni vel heppnaðri og ansi árangursríkri heimsókn í gróðurhúsið pikknikkuðum við í lítilli laut. Veður var skaplegt því hiti var í kringum 17 stig. Ráðgert hafði verið að kíkja í sund í þessari ferð en ekki fannst okkur það ráðlegt strax að loknu hádegissnarli (ótti við að sökkva til botns o.þ.h.) svo við fórum í bíltúr til Stokkseyrar.
Þar skoðuðum við höfnina og listaverk Árna Johnsen sem þar er að finna, rákum augun í Draugasetrið sem því miður var lokað (PG og Baldur virtust nú anda léttar við þær fréttir), rákum nefið inn í Þuríðarbúð hennar Þuríðar Einarsdóttur og kíktum á Stokkseyrarfjöru sem er með sérkennilegri fjörum sem ég hef augum litið, að frátaldri fjörunni við Garðskagavita sem er nota bene alveg stórkostleg.
Á bakaleiðinni í sundið kíktum við í Rjómabúið á Baugsstöðum sem stofnsett var 1905 og er samkvæmt upplýsingum þar á bæ eina rjómabú landsins sem enn er búið upprunalegum tækjakosti. Rjómabúið virkjaði lítinn læk sem rennur þarna hjá með því að koma upp vatnshjóli sem knúði einhvern mekkanisma sem strokkaði síðan rjóma og bjó þannig til smjör.
Að lokinni góðri sundferð í Sundlaug Selfoss þar sem við syntum smá, fórum smá í pottinn og lágum smá í sólbaði í blíðviðrinu var kominn tími til að halda heim á leið. Mér tókst að halda ætu plöntunni frá Balduro og koma henni þannig í hús svo nú bíð ég bara spennt að sjá þegar hún blómstrar bleiku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli